Borgarfulltrúi Flokks fólksins ætlar að krefja borgarstjórn svara um kostnaðinn sem hlýst af ógiltri samkeppni um hönnun brúar yfir Fossvog. Bent er á að Reykjavíkurborg beri ákvaðanaábyrgð í málinu og að væntanlegar skaðabætur greiðist úr vasa útsvarsgreiðenda.
Eins og DV hefur fjallað um, þann 17. júlí og síðan aftur þann 5. ágúst, hefur úrskurðarnefnd kærunefndar útboðsmála fellt úr gildi samkeppni um hönnun brúar sem á að tengja saman Reykjavík og Kópavog. Framkvæmdin mun verða veigamikill þáttur í borgarlínuverkefninu og stytta mjög ferðir á milli þessara bæjarfélaga.
Sautján teymi sóttu um þátttöku í samkeppni um hönnun brúarinnar. Sex af þeim voru valin til að taka þátt í samkeppninni og fékk hvert teymi greiddar þrjár milljónir króna auk virðisaukaskatts. Einn aðili átti svo að vera valinn í lokin og fá verkefnið. Annað þeirra aðila sem kærðu keppnina heldur því fram, bæði í kæru sinni og í viðtali við DV að verkfræðistofunni Eflu hafi verið hyglað við framkvæmd keppninnar sem hafi miðað að því að Efla fengi verkefnið. „Að okkar mati er þetta vísvitandi, klárlega er þarna verið að hygla Eflu mönnum því þeir eru þarna undir og yfir og allt í kringum verkefnið og hjá Vegagerðinni,“ segir Baldur Ó. Svavarsson, einn eigandi arkitektastofunnar Úti & Inni.
Þeir sem stóðu að samkeppninni voru Vegagerðin, Kópavogsbær og Reykjavíkurborg. Sveitarfélögin bera ábyrgð í málinu en framkvæmdin var að mestu í höndum Vegagerðarinnar. Í úrskurði úrskurðarnefndar kærunefndar útboðsmála segir að framkvæmd keppninnar stríði gegn lögum um opinber innkaup og að forsendur fyrir valinu á þeim sem áttu að fá að taka þátt hafi verið of matskenndar. Þá hafi verið ósamræmi á milli matsins og forsendna í forvalsgögnum. Í úrskurðinum er Vegagerðin gerð skaðabótaskyld gagnvart þeim sem kærðu.
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, vekur athygli á málinu í aðsendri grein á Vísir.is í dag og bendir á að Reykjavíkurborg sé einn þeirra þriggja aðila sem beri ábyrgð á klúðrinu. „Fátt kemur orðið á óvart þegar kemur að stjórnsýslumálum. Í Reykjavík hefur hver skandallinn rekið annan undanfarin tvö ár þar á meðal vegna brota á innkaupareglum. Hver man ekki eftir braggamálinu? Nú hefur úrskurðarnefnd kærunefndar útboðsmála fellt úr gildi hönnunarsamkeppni sem Vegagerðin, Reykjavíkurborg og Kópavogsbær stóðu fyrir um hönnun brúar yfir Fossvog,“ segir Kolbrún í grein sinni.
Kolbrún fer yfir ásakanir kærenda um meint óeðlileg tengsl verkfræðistofunnar Eflu við verkefnið og ásakanir um að verið sé að hygla fyrirtækinu við framkvæmd samkeppninnar. Kolbrún segir:
„Efla hf.er stór viðskiptavinur borgarinnar. Reykjavíkurborg hefur greitt fyrirtækinu sem nemur á fjórða milljarð á 10 árum, alls tæpa 3,7 milljarða króna. Það gerir að meðaltali 300 milljónir á ári sem samsvarar árslaunum 6-10 sérfræðinga hjá Reykjavíkurborg.“
Kolbrún segir að Flokkur fólksins muni kalla eftir upplýsingum um kostnaðinn sem af þessu hlýst:
„Fulltrúi Flokks fólksins mun óska eftir upplýsingum um hvað þessi mistök í útboðsmálum munu kosta borgarbúa. Í þessu máli er alla vega víst að Reykjavíkurborg ber ákvarðanaábyrgð og skaðabætur greiðast úr vasa útsvarsgreiðenda.“