fbpx
Mánudagur 27.janúar 2025
Eyjan

Staðan á vinstri vængnum: Vænlegir nýliðar og beðið eftir ákvörðun Rósu Bjarkar

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 3. ágúst 2020 07:30

Guðmundur Ingi, Rósa Björk og Finnur Beck.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Framboðsmál Vinstri grænna og Samfylkingar. Steingrímur er talinn vera á útleið og Dagur mun ekki ætla sér í landsmálin. Rósa Björk fer jafnvel fram fyrir Samfylkinguna. Björn Jón Bragason heldur hér áfram yfirferð sinni um stöðu flokkanna í aðdraganda þingkosninga á næsta ári.

Eftir að Samfylkingin varð til sem þingflokkur árið 1998 virtist sem draumurinn um sameiningu vinstrimanna hefði að miklu leyti ræst. Hæst reis Samfylkingin í 31% fylgi í alþingiskosningunum 2003 og það var þá sem farið var að tala um „turnana tvo“ í íslenskum stjórnmálum, Sjálfstæðisflokk og Samfylkingu.

Björn Valur aftur á þing?

Vinstrihreyfingin – grænt framboð var jafnan mun minni en Samfylkingin. Þetta hefur snúist við á seinni árum vegna innanflokksmeina og formannsrauna Samfylkingar. Á sama tíma hafa Vinstri grænir átt prýðilegu fylgi að fagna undir forystu Katrínar Jakobsdóttur. Hún nýtur yfirburðatrausts sem forsætisráðherra, en samkvæmt könnun Gallups frá í vor eru 59% landsmanna ánægðir með störf hennar. Þrátt fyrir miklar vinsældir Katrínar mælist flokkurinn að jafnaði aðeins með um 12,5% í könnunum, en hlaut rétt tæp 17% fylgi í síðustu alþingiskosningum.

Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi formaður VG, hefur setið á Alþingi samfleytt síðan 1983. Steingrímur var þekktur fyrir að mæta hvarvetna á mannamót í sínu kjördæmi. Gjarnan sást til hans taka í nefið með bændum upp undir húsvegg. Fólk í kjördæminu kveðst lítið hafa orðið vart við hann undanfarin misseri og hefur til marks um að hann ætli ekki fram aftur.

Margir velta fyrir sér mögulegum arftaka. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur, sem situr í öðru sæti lista flokksins í kjördæminu, mun án efa sækjast eftir oddvitasætinu hverfi Steingrímur á braut. Sumir heimildarmanna nefna Björn Val Gíslason skipstjóra, en hann var þingmaður VG í kjördæminu 2009–2013.

Súlur Samfylkingar eru rauðar en súlur Vinstri grænna grænar að lit.

Sæti fyrir varaformanninn

Lilja Rafney Magnúsdóttir er nú oddviti Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi en varamaður hennar er Bjarni Jónsson, fiskifræðingur og leiðtogi flokksins í Skagafirði. Bjarni er sonur Jóns Bjarnasonar, fyrrv. þingmanns VG, og því bróðir Ásgeirs seðlabankastjóra.

Bjarni kann að taka slaginn um fyrsta sætið. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra var í fyrra kjörinn varaformaður flokksins. Hann er úr Mýrasýslu og mun ef til vill sækjast eftir oddvitasætinu á lista flokksins í kjördæminu, en vera má að hann taki slaginn í einhverju hinna kjördæmanna.

Vinstri grænir hafa löngum haft minnst fylgi í Suðurkjördæmi. Þingmaður flokksins þar er Ari Trausti Guðmundsson. Margir aðspurðra telja líklegt að hann gefi ekki kost á sér á nýjan leik, en hann verður 72 ára á næsta ári. Það er hár aldur í íslenskum stjórnmálum, ólíkt því sem tíðkast vestanhafs.

Hvað gerir Rósa Björk?

Þingmenn flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum, auk Katrínar formanns, eru þau Svandís Svavarsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé og Steinunn Þóra Árnadóttir. Telja má líklegt að þau gefi öll kost á sér áfram. Aftur á móti er óvíst með Rósu Björk Brynjólfsdóttur, oddvita flokksins í Suðvesturkjördæmi. Hún hefur ekki stutt ríkisstjórnina og kunnugir segja hana eiga meiri samleið með Samfylkingunni en VG. Hún hugsi sér jafnvel að fara fram fyrir Samfylkinguna í kjördæminu. Rósa Björk er kona Kristjáns Guy Burgess, fyrrv. framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar og aðstoðarmanns Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra. Samfylkingin á fyrir einn þingmann í Kraganum, Guðmund Andra Thorsson, sem þykir ekki hafa sýnt mikil tilþrif í þingsal. Einn viðmælenda orðaði það svo að þetta væri „einfaldlega ekki hans deild“.

Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, þykir sömuleiðis litlaus og má telja líklegt að teflt verði fram nýju oddvitaefni í kjördæminu. Þar er sér í lagi horft til Akraness þar sem flokkurinn hlaut 31,2% fylgi í síðustu bæjarstjórnarkosningum, en um fjórðungur íbúa kjördæmisins býr á Skaganum.

Ýmsir nýliðar nefndir

Þingmenn Samfylkingar í Reykjavíkurkjördæmunum þykja líklegir til að halda sinni stöðu. Þar sitja fyrir þau Helga Vala Helgadóttir og Ágúst Ólafur Ágústsson. Meðal mögulegra nýrra kandídata í Reykjavík eru Heiða Björg Hilmisdóttir borgarfulltrúi og Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir varaþingmaður. Karen Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri flokksins, hefur líka verið orðuð við þingmennsku, sem og Gunnar Alexander Ólafsson. Gunnar hefur lengi stefnt að þingmennsku en hann starfar hjá Umhverfisstofnun.

Þá er Finnur Beck nefndur sem mögulegur nýr oddviti flokksins í Suðurkjördæmi þar sem fyrir situr Oddný G. Harðardóttir, en Finnur var á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir síðustu alþingiskosningar. Þau Finnur og Karen eru bæði fyrrverandi fréttamenn og vel þekkt andlit.

Samfylkingin á góða möguleika

Ýmsa rótgróna flokksgæðinga dreymir um endurkomu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem nú er hætt störfum fyrir ÖSE, en innanbúðarmenn segja útilokað að hún gefi kost á sér. Pólitískur fóstursonur hennar, Dagur B. Eggertsson, er víst heldur ekki á leiðinni í þingframboð. Ekki er því annað að sjá en Logi Einarsson verði áfram leiðtoginn.

Samfylkingin hlaut 12,1% fylgi í síðustu kosningum en hefur mælst með talsvert meira fylgi á kjörtímabilinu, um 15,1% það sem af er þessu ári, ef litið er til kannana Gallups. Þeir sem hyggja á framboð fyrir Samfylkinguna geta því hugsað sér gott til glóðarinnar, en á brattann verður að sækja fyrir Vinstri græna. – Þrátt fyrir vinsælan skipstjóra í brúnni er ekki víst að það dugi til að sigla fleyinu heilu til hafnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nýr naflastrengur

Óttar Guðmundsson skrifar: Nýr naflastrengur
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Inga Sæland: Árásirnar á okkur grímulaust einelti – sjálfstæðismenn vilja fela eigin vandræði

Inga Sæland: Árásirnar á okkur grímulaust einelti – sjálfstæðismenn vilja fela eigin vandræði