„Veiran er farin aftur á stjá. Smituðum hefur fjölgað mikið og við verðum að fara aftur til baka, fækka skemmtunum og koma færri saman. En þessar takmarkanir hafa mismikil áhrif á okkar daglega líf,“ segir Helga og bendir á að einn hópur hefur mánuðum saman orðið fyrir gríðarlegu tapi.
„Það eru tónlistarmenn og þeir sem starfa í afleiddum störfum tengdum tónlistar- og skemmtanaiðnaði. Stjórnvöld hafa lagt til margvíslegar aðgerðir til stuðnings fyrirtækjum í landinu og fólki sem hefur misst viðurværi sitt. Hlutabótaleið, lokunarstyrkir og stuðningslán, styrkur til fyrirtækja vegna uppsagna og fleira.“
Helga segir að sjálfstætt starfandi listamenn hafi margsinnis bent á það hversu illa þessar leiðir nýtist þeim. „En því miður hafa stjórnvöld ekki brugðist við. Rannsóknir þeirra hafa leitt í ljós að áhrif Covid-19 á þennan hóp hafa verið gríðarleg. Listafólkið okkar getur illa nýtt sér úrræði vegna Covid-19 meðal annars því tekjuöflun þess er óregluleg og á síbreytilegu formi. Lokunarstyrkir fást ekki né heldur hlutabætur enda engar tekjur til staðar,“ segir hún.
„Nú þegar verslunarmannahelgin átti að bæta hag einhverra fór veiran af stað og okkur var öllum gert að stíga nokkur skref til baka. Engar bæjarhátíðir, tónleikar eða fjöldasamkomur. Já, nú verðum við að standa saman en þá hvet ég stjórnvöld til að standa sérstaklega með listafólkinu okkar.“
Þá segir Helga að þetta sé ekki bara eitt og eitt gigg, þetta séu allir tónleikarnir, allar tónleikaferðirnar og allar tónlistarhátíðirnar sem bókaðar voru fyrir síðastliðna og komandi mánuði. „Okkar þekktasta tónlistarfólk sem hefur lifað alfarið á tónlistinni verður fyrir áframhaldandi tekjufalli. Hafa verður í huga að margt tónlistarfólk hafði mánuðum saman undirbúið tónleikaferðir erlendis, greitt fyrir leigu á hljóðfærum og græjum og annan kostnað sem ekki fæst endurgreiddur. Búið var að leggja út fyrir kostnaði vegna tónleikaferða sem ekki voru farnar.“
Helga segir að stjórnvöld verði nú að horfa til allra þessa starfa sem glötuðust og þess fé sem glataðist vegna þeirra. Þá þurfi að skoða hvernig sé hægt að koma til móts við þetta vandamál. „Hvort við getum nú staðið saman með okkar góða listafólki og listatengda starfsfólki sem ekki á þess kost að sækja í sjóði, sem ekki getur bókað gigg en verður nú að fá verkefni og þau greidd,“ segir hún.
„Það þarf að leggja til aukna fjármuni til nýsköpunar í listum, til uppbyggingar sprotafyrirtækja í listum og til stuðnings þeim sem lagt höfðu út í mikinn kostnað vegna listar sinnar sem ekki komst á svið. Það eru dæmi um slíkan stuðning víða í löndunum í kringum okkur og ég skora á stjórnvöld að kalla nú sérstaklega þennan hóp að borðinu og skapa saman leiðir til stuðnings okkar mikilvægasta fólki sem borið hefur hróður okkar út um allan heim.“