„Borgarlínan er fundin upp af pólitískum ástæðum, eftiröpun antibílista á norskum vegi. Útfærslan er stórhættuleg ef tekið er mið af íslenskum aðstæðum,“ segir prófessorinn Jónas Elíasson í nýrri grein í Morgunblaðinu.
Jónas hefur undanfarið verið með harðan málflutning gegn áformum um Borgarlínu sem hann telur vera gagnslausa framkvæmd og fela í sér gífurlegar fjárhagslegar skuldbindingar.
„Það er erfitt að átta sig á hvað vakir fyrir fólki sem vill stífla þjóðvegina fyrir einkabílum, þrátt fyrir þann efnahagslega skaða sem það veldur atvinnulífinu sem og
menningarlegri afturför. Engin skynsemisrök benda í þessa átt,“ segir Jónas í upphafi greinar sinnar, en hann telur að trúarbrögð búi að baki áformunum en ekki rökhyggja. Trúarbrögðin séu antíbílismi:
„Til er sú trú, antibílismi, að einkabíllinn sé af því vonda. Ekki svo slæm trú sé hún iðkuð í hófi, hún á sinn þátt í því að einkabílar í dag vega ekki nema þriðja part, og eyða ekki nema fjórða parti, af því sem var fyrir um 50 árum ef fólk kaupir sparneytinn bíl.
En eins og í öðrum trúarbrögðum hafa þróast sértrúarhópar í þessum söfnuði sem eru sannfærðir um að einkabíll sé synd. Synd gegn umhverfinu, loftslaginu og náttúrunni. Þá skiptir engu máli að útblástur og mengun einkabíla er afar lítil miðað við aðra þætti. Að útrýma þeim lagar loftið ekki neitt.“
Jón segir að fyrirmynd borgarlínunnar sé misheppnuð norsk framkvæmd og birtir hann eftirfarandi mynd:
Síðan segir hann:
„Þetta er vegur 44 í Stavanger. Hann er gerður samkvæmt eldri tillögum, nema 60 % vegarins í miðjunni eru tekin undir strætó og þar mega aðrir ekki vera. Þetta stíflar fjölfarna vegi gersamlega á álagstímum fyrir allri umferð nema strætó.
Vegurinn er lokaður inni með girðingu, en gönguop eru á stöku stað. Meiningin er að fólk komi þar í gegn, gangi að næstu stoppistöð og fari þar yfir akbrautina inn á reinarnar sitthvorumegin við strætóbrautina. Menn geta ímyndað sér hvernig það gengur við íslenskar aðstæður að skjótast yfir akbrautina inni á milli bíla sem snemma á morgnana og á kvöldin geta verið á 60-80 km hraða. Í íslensku myrkri og misjöfnum veðrum er þetta hrein dauðagildra fyrir börn og eldri borgara. Til að mæta þessari hættu voru sporvagnarnir lagðir niður á sínum tíma. Að setja strætó á sama stað og gömlu sporvagnana er bilun.“
Jónas telur fráleitt að útfæra þessa norsku framkvæmd í Reykjavík sem sé að verða gjaldþrota. Norðmenn hafi hins vegar fundið olíu sem hafi gert þeim kleift að fjármagna sína borgarlínu. Jónas segir að borgarlínan megi bíða í 50 ár í viðbót, enginn muni sakna hennar.