DV tók saman nokkur nöfn sem vert er að fylgjast með í stjórnmálaumræðunni. Ungmennin eru á aldrinum 23-33 ára og eiga það sameiginlegt að hafa látið til sín taka á hinu pólitíska sviði undanfarið og vakið eftirtekt fyrir vasklega framgöngu þar.
Mikil endurnýjun hefur verið í Alþingiskosningum undanfarin ár. Árið 2007 voru 38% þingmanna sem kosnir voru nýir á Alþingi. Svipaða sögu var að segja af kosningunum sem fylgdu og eru stjórnmálaskýrendur á einu máli að þessi þróun virðist hafa fest sig í sessi. Í dag þykir auðveldara fyrir þingmenn að fá störf við hæfi að þingmennsku lokinni og ekki þykir jafn sjálfsagt að þingmenn „fái áskrift“ að embættum sínum. Enn fremur er ljóst að nokkrir þingmenn eru ýmist komnir á eða munu sigla inn í eftirlaunaaldur á næsta kjörtímabili. Enginn þeirra hefur lýst því yfir að hann eða hún muni ekki gefa kost á sér aftur, en ljóst að ný kynslóð mun á einhverjum tímapunkti þurfa að taka við keflinu. Það er því ekki úr vegi að kynna sér vonarstjörnur flokkanna og af hverjum mest er að vænta á komandi misserum í pólitíkinni.
Jóna Þórey var forseti Stúdentaráðs á síðasta kjörtímabili eða frá mars 2019 og þar til í mars á þessu ári. Þótti Jóna tækla starfið sitt með eindæmum vel í gegnum erfiða tíma og koma vel fram fyrir hönd stúdenta í upphafi Covid-19 faraldursins. Jóna Þórey útskrifaðist úr Versló árið 2015 og hóf nám í lagadeild.
Heimildarmenn DV kalla Jónu Þóreyju meðal annars „snjöllustu manneskju í heimi.“ Jóna hefur starfað sem laganemi á lögmannsstofunni Fulltingi og sinnti aðstoðarkennslu við lagadeild Háskóla Íslands áður en hún varð stúdentaráðsfulltrúi fyrir Röskvu og forseti ráðsins. Eftir hana liggja fjölmargar hárbeittar greinar um Háskólann, menntastefnu ríkisstjórnarinnar og stúdentalífið. Jóna hefur lítið gefið upp opinberlega hvort leið hennar liggi í pólitík eða hvort hún horfi fremur til framtíðar í lögmennskunni, en ljóst er af störfum hennar fyrir stúdentaráð á krefjandi tímum, að bjartur pólitískur frami ætti að vera henni innan seilingar, kjósi hún þá leið.
Hreindís er þúsundþjalasmiður. Hún tók við formennsku í Ungum vinstri grænum 2018 og situr þar enn. Þykir hún njóta mikils trausts þar og er beðið eftir næstu skrefum hennar í pólitík með eftirvæntingu. Hreindís segist á Twitter vera „allskonar,“ og eru það engin rangmæli. MHingurinn er með BA gráðu í leiklist frá Guildford leiklistarskólanum í Bretlandi. Hún er jafnframt söngkona, kennari og flugfreyja hjá Icelandair. DV spurðist fyrir meðal framamanna í Vinstri grænum um björtustu vonarstjörnur flokksins, og beindust öll augu að Hreindísi.
Hreindís skipaði fjórða sætið á lista Vinstri grænna fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2018 og vermdi 11. sæti framboðslista VG í Reykjavíkurkjördæmi norður í Alþingiskosningunum 2017. Af heimildum DV að dæma er ljóst að leið Hreindísar liggur aðeins upp á við og má fastlega gera ráð fyrir því að hún taki sæti ofar á framboðslistum framtíðarinnar.
Albert er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og laganemi. „Litli maðurinn með stóra nafnið,“ hefur Albert verið kallaður af vinum sínum. Albert flutti jómfrúarræðu sína á Alþingi í apríl 2017 og fjallaði hún um málefni eldri borgara. „Það er mér sérstaklega ánægjulegt að taka sæti á þingi sem fulltrúi yngri kynslóðarinnar og sem yngsti sitjandi fulltrúi hv. þings í dag er ég þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt. Þótt ég tilheyri yngri kynslóðinni langar mig að tileinka mín fyrst orð í þessum ræðustól þeim sem eldri eru,“ sagði Albert í ræðustól Alþingis.
Síðan þá hefur Albert komið sjö sinnum inn á Alþingi ýmist fyrir Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra, eða Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra. Stóð Albert vel undir væntingum. Albert stundar nú laganám við Háskóla Íslands. Albert þykir hafa staðið sig með prýði í varaþingmennskunni og fastlega má gera ráð fyrir því að Albert sæki í frekari trúnaðarstörf innan flokksins í komandi prófkjörum.
Vert er að fylgjast með Höllu Sigrúnu Matthiesen. Halla er formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna og þykir hafa staðið sig vel í embættinu. Hún var kjörin í fyrra til tveggja ára og mun því sitja sem formaður SUS til næsta árs. Halla er dóttir Árna M. Matthiesen, fyrrum þingmanns Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra. Það skal því engan undra að rætur Höllu liggi til Sjálfstæðisflokksins.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og flokkssystir Höllu óskaði henni til hamingju með sigurinn á sínum tíma. „Það er verulega gaman að sjá svona öfluga manneskju taka við þessu mikilvæga og góða félagi. Hún er kjörin ásamt öflugu fólki frá öllu landinu sem gefur sig í ungliðastarf Sjálfstæðisflokksins. Það er okkur þingmönnum og ráðherrum afar mikilvægt.“, sagði Áslaug um flokkssystur sína.
Halla er með BA gráðu í hagfræði, stjórnmálafræði og sögu frá UCL í London og hefur starfað sem viðskiptastjóri hjá Arion banka og þar áður hjá Landsvirkjun. Halla hefur því komið víða við á stuttum ferli sínum. Þó er ljóst að Halla á nóg inni og eiga landsmenn örugglega eftir að heyra oft á nafn hennar minnst í náinni framtíð.
Janus hóf feril sinn í pólitík ungur og á þeim árum sem liðin eru er varla kosningabarátta sem hann hefur ekki snert. Janus er stjórnmálafræðingur að mennt og Sjálfstæðismaður. Hóf hann feril sinn í stjórnmálum í ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins. Var hann þar maðurinn á bak við tjöldin í fjöldamörg ár og er enn. Hann situr í varastjórn SUS en hefur áður setið í stjórnum og varastjórnum bæði SUS og Heimdallar auk miðstjórnar flokksins. Janus hefur stýrt kosningabaráttum til bæjarstjórna, borgarstjórnar og forsetakosningum. Enn fremur hefur hann stýrt framboðum í prófkjörum stjórnmálaflokka, rektorskjöri í Háskóla Íslands og nemendafélagskosningum. Leitun er að reynslumeiri manni í kosningageiranum hér á landi.
Nafn Janusar hefur ekki enn birst ofarlega á framboðslistum og hann hefur ekkert gefið upp hvort hugur hans leitar þangað eða hvort hann unir sér betur sem „maðurinn á bak við tjöldin.“ Í dag er Janus framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Janus stýrði kosningabaráttu Eyþórs Arnalds í prófkjöri Sjálfstæðismanna til sigurs. Janus þykir drifinn, staðfastur, ákveðinn og stefnuviss. Ljóst er að pólitíkin er hans heimavöllur og verður fróðlegt að fylgjast með næstu skrefum hans á því sviði.
Isabel á ættir sínar að rekja til El Salvador í Mið-Ameríku og settist að með fjölskyldumeðlimum á Ísafirði þegar hún var ung að árum. Isabel sagði frá því í Stundinni árið 2017 að hún hafi í 14 ár þurft að berjast fyrir réttindum sínum á Íslandi. Fyrst um sinn var henni hótað á 30 daga fresti að flytja ætti hana úr landi og lifði hún í ótta um að vera tekin af fjölskyldu sinni. Isabel kom með ömmu sinni og afa til Íslands, en ekki móður og föður. „Þessir 30 dagar urðu síðar að 6 mánaða fresti, sem gaf okkur meiri tíma til undirbúnings en var í sjálfu sér ekkert skárra. Sex mánuðirnir urðu svo „loksins“ að einu ári. Fyrir mig sem barn voru þetta ekki bréf, þetta voru hótanir. Samfélagið á Ísafirði gerði mér þessi ár bærileg, auk minnar trúar og trausts á Guði, en ég komst aldrei undan óttanum,“ skrifaði Isabel.
Vestfirðingurinn Isabel Alejandra er í dag forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands og er hún fyrsti einstaklingurinn af erlendum uppruna sem gegnir því starfi. Isabel var áður verkefnastjóri Tungumálatöfra, samfélagsverkefnis í heimabæ sínum Ísafirði. Einnig hefur Isabel starfað hjá UNICEF á Íslandi og hjá Endurmenntun HÍ. Isabel leiddi framboðslista Röskvu í stúdentaráðskosningunum og situr í Háskólaráði, æðstu stjórn Háskóla Íslands.
Isabel tekur við stjórn Stúdentaráðs á stormasömum tímum og ljóst að seta hennar næsta árið verður viss eldskírn. Hún þykir þó þegar hafa sannað sig og rúmlega það á fyrstu mánuðum í starfi og er áframhaldi á störfum Isabellu á opinberum vettvangi beðið með eftirvæntingu.
Una er varaþingmaður VG í Suðvesturkjördæmi og hefur hún komið inn sem þingmaður kragans sjö sinnum á kjörtímabilinu, ýmist fyrir Rósu Björk Brynjólfsdóttur eða Ólaf Þór Gunnarsson. Una flutti sköruglegar ræður um málefni ungs fólks, útgreiðslu persónuafsláttar og kynfrelsi. Lagði Una meira að segja fram frumvarp um breytingu á almennum hegningarlögum sem miðaði að því að veita intersex aukna vernd gegn hatursorðræðu og glæpum. Sex samflokksmenn Unu gerðust meðflutningsmenn frumvarpsins.
Tekið var eftir stuttri en snarpri þingsetu Unu og ljóst að sótt verður hart að því að ná Unu inn á næsta þing. Una hefur jafnframt beitt nýstárlegum aðferðum við að vekja athygli á samfélagslegum vanköntum og gerði hún meðal annars tilraun til að hópfjármagna fyrstu íbúðarkaupin sín. Var söfnunin ádeila á auglýsingaherferð Íslandsbanka sem vakti umtal um möguleika ungs fólks á fasteignamarkaði.
Una skipaði þriðja sæti lista Vinstri grænna í kraganum í síðustu kosningum og munaði aðeins rétt rúmum tvö þúsund atkvæðum að hún næði inn sem þriðji þingmaður flokksins í kraganum. Enn fremur skipaði Una 8. sæti á framboðslista VG fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Mosfellsbæ nú síðast. Una lauk námi frá MH og hefur meðal annars starfað sem viðburðarstýra hjá Nordjobb, framkvæmdastjóri gistiheimilis og var kosningastýra UVG 2013. Una er í dag formaður Landssambands ungmennafélaga.
Þessi grein birtist fyrst í síðasta helgarblaði DV. Fyrir meiri upplýsingar um áskrift má senda tölvupóst á askrift@dv.is.