fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Hönnunarsamkeppni um brú yfir Fossvog felld úr gildi

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 17. júlí 2020 14:10

Mynd: Reykjavík.is

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Úrskurðarnefnd kærunefndar útboðsmála hefur fellt úr gildi hönnunarsamkeppni sem Vegagerðin ásamt fleiri aðilum stóð að, þar á meðal Reykjavíkurborg og Kópavogsbær, um hönnun brúar yfir Fossvog. Verkefnið er veigamikill hluti af áætlunum um borgarlínu. Samkeppnin var kærð og kærendur telja að verkfræðistofunni EFLA hafi verið hyglað af Vegagerðinni og öðrum aðilum sem stóðu að keppninni.

Málið gæti átt eftir að verða Vegagerðinni, Kópavogsbæ og Reykjavíkurborg dýrt þegar upp er staðið því þessir aðilar eru skaðabótaskyldir gagnvart ákærendum samkvæmt úrskurðinum. Nú þegar hefur samkeppnin kostað að minnsta kosti 20 milljónir króna.

Í nóvember í fyrra var auglýst eftir aðilum til að taka þátt í samkeppni um hönnun brúar yfir Fossvog. Sex þátttakendur voru síðan valdir til þátttöku og fékk hver aðili þrjár milljónir króna fyrir utan virðisaukaskatt fyrir þátttöku í samkeppninni. Gert var ráð fyrir því að samið yrði við vinningshafann að samkeppninni lokinni um hönnun brúarinnar. Sautján aðilar sóttu um þátttöku í keppninni en um var að ræða opið forval á EES-svæðinu.

Þátttakendur voru síðan metnir út frá nokkrum þáttum og þeim gefin stig fyrir hvern og einn. Upphaflega átti að velja fimm aðila til þátttöku en þegar niðurstöður úr einkunnagjöfinni lágu fyrir var ákveðið að fjölga þeim upp í sex. Þeir sex aðilar sem voru valdir fengu heildareinkunn á bilinu 86-92 stig en þeir sem kærðu keppnina fengu 70 stig.

Segja að Efla hafi fengið óeðlilegt forskot

Þeir aðilar sem kærðu samkeppnina voru Úti og inni arkitektar sf., Verkfræðistofa Suðurnesja ehf., Aas-Jakobsen, Landmótun sf. og Liska ehf. Kæran var meðal annars byggð á því að við val á þátttakendum og mati á umsóknum þeirra hafi verið litið til fjölmargra þátta sem ekki hafi verið tilgreindir í forvalsgögnunum. Ef þessar forsendur hefðu legið fyrir þá hefðu þátttakendurnir hagað umsóknum sínum með öðrum hætti.

Einnig er byggt á því að einn þeirra aðila sem valdir voru til þátttöku í keppninni, verkfræðistofan Efla hf., hafi tekið ríkan þátt í undirbúningsferli forvalsins með aðkomu að gerð deiliskipulags fyrir brúna sem samþykkt hafi verið 2019 og með aðkomu að starfshópi um gerð brúarinnar sem skilað hafi skýrslu í febrúar 2013. Fyrirtækið hafi með þessu fengið óeðlilegt forskot á aðra þátttakendur í forvalinu. Jafnframt hafi einn dómnefndarmanna verið starfsmaður Eflu hf. og tiltekinn starfsmaður Vegagerðarinnar, sem hafi staðfest ákvörðun dómnefndar um val þátttakenda, verið eigandi, stjórnarmaður og starfsmaður Eflu hf. þar til fyrir skömmu.

Þá segir ennfremur í forsendum þeirra sem kærðu í úrskurðinum:

„Kærendur byggja einnig á því að mat varnaraðila á umsóknum þátttakenda hafi verið rangt og í andstöðu við meginreglur laga um opinber innkaup um jafnræði, gagnsæi og meðalhóf, sem og 44. gr. laga nr. 120/2016. Ósannað sé að allir þátttakendur hafi verið metnir á sömu forsendum og að stigagjöf þeirra sé réttmæt og málefnaleg, enda liggi ekki fyrir matsblöð varnaraðila fyrir hvern og einn þátttakenda. Þá orki stigagjöf varnaraðila tvímælis í fjölmörgum atriðum, til dæmis stigagjöf fyrir skipurit og samsetningu hóps. Þá halli verulega á stigagjöf annarra þátttakenda í samanburði við stigagjöf Eflu hf., sem hafi fengið flest stig allra þátttakenda, jafnvel fleiri stig en stórir og reynslumiklir innlendir og erlendir aðilar. Þá sé mat varnaraðila á umsókn kærenda rangt og byggt á rangfærslum og ómálefnalegum sjónarmiðum.“

Of matskenndar umsagnir

Úrskurður Úrskurðarnefndar kærunefndar útboðsmála er kærendunum mjög í hag. Er meðal annars tekið undir það að umsagnir hafi verið of almennar og matskenndar. Einnig er tekið undir að umsagnirnar hafi ekki verið í samræmi við upplýsingar í forvalsgögnunum. Um þetta segir orðrétt í úrskurðinum:

„Að mati kærunefndar útboðsmála voru þær forsendur sem skyldu ráða vali þátttakenda og tilgreindar voru undir liðunum „Verktilhögun“, „Sýn á verkefnið“ og „Fyrri reynsla“ í grein 2.4 í forvalsgögnum verulega almennar og matskenndar. Að mati nefndarinnar er raunar vandséð hvernig gefa hafi átt stig fyrir það hversu vel umsóknir samsvöruðu kröfum forvalslýsingar, eins og grein 2.3 í forvalsgögnum gerði ráð fyrir, miðað við almenna lýsingu forvalsgagna um hvernig mat á umsóknum skyldi fara fram.

Það er enda ljóst að þegar varnaraðilar lögðu mat á tillögur og gáfu þeim stig höfðu þeir greint þessa þrjá þætti nánar í tiltekna liði sem stig voru gefin fyrir, án þess þó að upplýst hefði verið um það í forvalsgögnum eða með öðrum hætti. Gögn málsins bera þannig með sér að til stiga hafi verið metnir þættir sem ekki var upplýst um eða mátti greina af forvalsgögnum, svo sem „reynsla hóps af samstarfi“ undir liðnum „Verktilhögun“ og „tungumál, staðbundin þekking“ undir liðnum „Sýn á verkefnið“.

Ætla verður að þátttakendur hefðu hagað umsóknum sínum með öðrum hætti hefði verið upplýst um forsendur þessar í forvalsgögnum, en telja verður að varnaraðilum hefði verið það í lófa lagið.  Þegar af þessari ástæðu verður að miða við að skilmálar hins kærða forvals hafi ekki samrýmst þeim lagaákvæðum og meginreglum laga um opinber innkaup sem áður hefur verið lýst. Verður því fallist á kröfu kærenda um að ákvörðun varnaraðila um val á þátttakendum í hinu kærða forvali verði felld úr gildi.“

Samkeppnin ógild og skaðabótaskylda

Úrskurðarnefndin hefur fellt samkeppnina úr gildi og krafist þess að Vegagerðin, Kópavogsbær og Reykjavíkurborg greiði kærendunum 900.000 krónur í málskostnað. Einnig opnar úrskurðurinn á skaðabótamál því úrskurðað er að hinir kærðu séu skaðabótaskyldir. Um þetta segir í úrskurðinum:

„Samkvæmt 1. mgr. 119. gr. laga um opinber innkaup er kaupandi skaðabótaskyldur vegna þess tjóns sem brot á lögunum hefur í för með sér. Fyrirtæki þarf einungis að sanna að það hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valið af kaupanda og að möguleikar þess hafi skerst við brotið. Skal bótafjárhæð þá miðast við kostnað við að undirbúa tilboð og taka þátt í útboði. Í greinargerð með 84. gr. í lögum nr. 94/2001 um opinber innkaup, þar sem efnislega sambærilegt ákvæði var að finna, kemur fram að í ákvæðinu felist að sönnunarbyrðin um að afleiðing brots hafi ekki valdið bjóðanda tjóni er lögð á kaupanda. Með hliðsjón af því og atvikum málsins að öðru leyti verður að miða við að kærendur hafi átt raunhæfa möguleika á að verða fyrir valinu í forvalinu hefðu valforsendur verið settar fram með lögmætum hætti og að möguleikar þeirra hafi skerst við brotið. Það er því álit kærunefndar útboðsmála að varnaraðilar séu bótaskyldir gagnvart kærendum vegna kostnaðar við að undirbúa umsókn sína og taka þátt í hinu kærða forvali.“

Fyrr á árinu stöðvaði úrskurðarnefndin samkeppnina tímabundið og var sá úrskurður birtur á netinu. Sá úrskurður sem þessi frétt byggir á var felldur þann 6. júlí síðastliðinn og hefur ekki verið birtur opinberlega, en DV hefur hann undir höndum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Dagfari: Fækkum ráðherrum, stofnunum og aðstoðarmönnum – aðhaldið verður að koma ofan frá

Dagfari: Fækkum ráðherrum, stofnunum og aðstoðarmönnum – aðhaldið verður að koma ofan frá
Eyjan
Í gær

Segir Sjálfstæðisflokkinn slá ryki í augun á millistéttarfólki – Í raun standi til að lækka skatta á hina ríku

Segir Sjálfstæðisflokkinn slá ryki í augun á millistéttarfólki – Í raun standi til að lækka skatta á hina ríku
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Snorri vill leggja Fjölmiðlanefnd niður – „Það er bara gert grín að þessu, þetta er bara brandari“

Snorri vill leggja Fjölmiðlanefnd niður – „Það er bara gert grín að þessu, þetta er bara brandari“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þrumuræða Ingu Sæland vekur mikla athygli – „Ég fyrirlít stjórnvöld sem ætla ekki að taka á þessu“

Þrumuræða Ingu Sæland vekur mikla athygli – „Ég fyrirlít stjórnvöld sem ætla ekki að taka á þessu“