Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, skrifar aðsenda grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag undir yfirskriftinni: „Einkabíllinn er ekki framtíðin.“
Þar segir Sigurborg: „Áratugir þar sem mönnum líkt og Davíð Oddssyni og Robert Moses fannst sjálfsagt að fórna öllu fyrir hraðbrautir eru í dag hluti af fortíðinni. Þetta eru áratugir þar sem frekir karlar og ómanneskjuleg verkfræði sköpuðu í sameiningu það bílaumhverfi sem einkennir margar vestrænar borgir. Öllu skyldi fórna fyrir einkabílinn, hvort sem um var að ræða fátækrahverfi í New York eða Fossvogsdalinn í Reykjavík.“
Sem kunnugt er var Davíð Oddsson bæjarstjóri Reykjavíkurborgar þegar lögð var áhersla dreifingu byggðar frekar en uppbyggingu almenningssamgangna og Robert Moses var hugsuðurinn á bak við uppbyggingu hraðbrautarkerfis New York-borgar á sínum tíma frekar en að efla almenningssamgöngur.
„Í dag er Davíð Oddsson kominn upp í Hádegismóa og Robert Moses undir græna torfu. Í dag er Reykjavík að byggja húsnæði fyrir heimilislaust fólk, að vernda græn svæði og fækka einkabílum. Minnka umferðarhraða og forgangsraða gangandi fyrst. Skapa hægan púls með minni mengun og meira af gróðri þar sem þú nýtur tilverunnar, hvort sem þú ert á leiðinni til vinnu eða að hitta vinkonu,“ segir Sigurborg ennfremur.
Hún segir að færri akreinar fyrir bíla og færri bílastæði færi fólki svo miklu meira en hreinna loft. „Færri bílaakreinar og færri bílastæði færa okkur svo miklu meira en hreinna loft. Þau færa okkur aukið pláss fyrir borgarlínu og fyrir húsnæðisuppbyggingu. Sem færir okkur minni umferðartafir og lægri samgöngukostnað. Sem færir okkur aukinn frítíma og aukin lífsgæði. Fjárfesting sem skapar ekki vítahring heldur sjálfbæran hring.“
Greinina í heild sinni má lesa í Morgunblaðinu.