Þetta kemur fram í viðtali við Dag í Morgunblaðinu í dag. Alþingi samþykkti nýja samgönguáætlun á dögunum en samkvæmt henni er hægt að hefjast handa um gerð Borgarlínunnar. Í fyrsta áfanga verksins er leið hraðfara strætisvagna úr miðborginni í Höfðahverfi og í Hamraborg í Kópavogi.
Dagur væntir þess að hönnun þessara framkvæmda ljúki næsta vetur og að vagnar aki eftir þessari leið eftir þrjú ár hið mesta.
„Reyndar horfi ég til þess að samgönguverkefnunum, sem eiga að kosta 120 milljarða í heild og vinnast á 15 árum, verði flýtt.“
Er haft eftir Degi sem sagði einnig að með því að auka vægi almenningssamgangna verði meira rými fyrir aðrar samgöngur á samgönguæðum höfuðborgarsvæðisins. Það verði meira rými fyrir einkabílinn og þá sem ganga, hlaupa eða hjóla.
„Í framtíðinni verða ferðavenjur flestra meiri blanda ólíkra kosta en nú. Því er okkur nauðsynlegt að komast út úr þeim skotgrafahernaði að líta á að einhver einn ferðamáti skuli ráða.“
Er haft eftir honum.