fbpx
Mánudagur 27.janúar 2025
Eyjan

Harmafregn fyrir hálfri öld – „… válegustu tíðindi ævi minnar“

Ritstjórn Pressunnar
Föstudaginn 10. júlí 2020 18:00

Bjarni Benediktsson í maí 1963. MYND/ INGIMUNDUR MAGNÚSSON

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fimmtíu ár liðin frá brunanum á Þingvöllum þegar Bjarni Benediktsson forsætisráðherra lést ásamt konu sinni og dóttursyni. Bjarni hafði afgerandi áhrif á stjórnmálin.

Kalt var í veðri á Þingvöllum aðfaranótt 10. júlí 1970 – fyrir hálfri öld – norðan hávaðarok, slyddubylur og grátt niður í fjallsrætur. Um klukkan hálf tvö eftir miðnætti urðu hollenskir ferðamenn varir við eld í Konungsbústaðnum sem var hvíldarhús forsætisráðherra og staðsett rétt sunnan við Valhöll. Þegar þeir komu þar að logaði eldur úr stofuglugga í suðausturhorni hússins og greinilega var mikill eldur inni í húsinu. Skömmu síðar varð sprenging og þakið lyftist um nokkra metra.

Harmafregn

Talsverður vindur var af norðri og húsið varð alelda á svipstundu. Þá var ekki vitað hvort nokkur væri inni í bústaðnum en haft var samband við Harald Guðmundsson, bílstjóra forsætisráðherra, sem gat upplýst að hann hefði ekið með forsætisráðherra, Bjarna Benediktsson, konu hans Sigríði Björnsdóttur og dótturson þeirra Benedikt Vilmundarson austur að Þingvöllum daginn áður en þau hugðust dveljast í Konungsbústaðnum um nóttina. Þau létust öll þrjú í brunanum. „Nú höfðu mér verið sögð válegustu tíðindi ævi minnar,“ mælti Jóhann Hafstein þegar honum var borin hin sviplega harmafregn sem að framan greinir, en Jóhann tók við forsætisráðherraembættinu þennan sama dag.

Glæsilegur ferill

Bjarni Benediktsson var einn mesti leiðtogi Íslendinga á 20. öld og ferill hans óvenju glæsilegur, hvort heldur á sviði stjórnmála eða fræðimennsku. Hann var fæddur í Reykjavík 1908 og hélt utan til náms í stjórnlagafræði að loknu lagaprófi með hæstu einkunn sem þá hafði þekkst. Hann varð prófessor við Háskólann aðeins 24 ára að aldri og gegndi því starfi uns hann varð borgarstjóri í Reykjavík 1940. Ein besta heimild um Bjarna sem mann og þjóðarleiðtoga er ræða sú sem hann flutti á Þingvöllum 1943 og nefnd hefur verið Lýðveldi á Íslandi. Þá hafði verið hart deilt um uppsögn sambandslagasamningsins og lýðveldisstofnun og ýmsir vildu bíða til styrjaldarloka. Bjarni hafnaði því með öllu og flutti rækilega rök fyrir stofnun lýðveldis ekki seinna en 17. júní 1944. Í niðurlagi ræðunnar sagði hann: „En víst er það, að sá, sem ekki viðurkennir sinn eigin rétt, fær ekki heldur viðurkenningu annarra.“

Síðdegisblaðið Vísir, forveri DV, flytur harmafregn á forsíðu 10. júlí 1970.

Mótun utanríkisstefnu

Ákvörðun um inngöngu Íslands í Norður­Atlantshafsbandalagið var tekin með atkvæðagreiðslu á Alþingi 30. mars 1949. Þann dag urðu ein hörðustu mótmæli sem um getur hérlendis þegar ráðist var með grjótkasti á Alþingishúsið. Bjarni gerði sér glögga grein fyrir því að treysta þyrfti varnir landsins. Sjálfur komst hann svo að orði um Atlantshafsbandalagið: „Öll þau ríki sem gerðust aðilar bandalags
ins tóku þá ákvörðun af brýnni nauðsyn. – Ekkert þeirra átti þó meira undir að friður héldist á þessum slóðum en Ísland. Hernaðarþýðing Íslands er ótvíræð, og landsmenn sjálfir eru með öllu ófærir til að verja landið. Ef ekki var að gert lá landið því opið fyrir árás ef til ófriðar kæmi.“ Bjarni er öðrum fremur talinn höfundur þeirrar utanríkisstefnu sem íslenska lýðveldið hefur fylgt fram til þessa dags.

„Ef menn vilja einangrun“

Bjarni var ráðherra allt til ársins 1956 en gerðist þá ritstjóri Morgunblaðsins. Hann tók svo aftur við ráðherradómi 1959 þegar viðreisnarstjórnin var mynduð. Árið 1963 varð hann forsætisráðherra og gegndi því embætti til dánardægurs. Hér er vitaskuld ekki rúm til að rekja feril Bjarna til hlítar, en árið áður en hann lést hafði verið deilt hart á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um aðild Íslands að Fríverslunarbandalagi Evrópu, EFTA.

Bjarni tók þá til máls en orð hans lýsa miklu innsæi í stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna: „Ef menn vilja einangrun, þá verða þeir að taka afleiðingum hennar og reyna þá hvorki gagnvart sjálfum sér né öðrum að hræsna með því að þeir séu hinir mestu framfaramenn. Þeir eru þvert á móti menn afturhalds og úrtölu. Einangrunin, sem nærri hafði drepið þjóðina á löngum, þungbærum öldum, er þeim runnin svo í merg og bein, að þeir daga uppi sem nátttröll á tímum hinna mestu framfara. Vísindi og tækni nútímans og hagnýting þeirra er bundin þeirri forsendu, að víðtækt samstarf eigi sér stað. Þess vegna leita jafnvel stórþjóðirnar samstarfs hver við aðra, jafnt stórar þjóðir sem smáar. Ef stórþjóðunum er slík þörf, þá er smáþjóðunum það nauðsyn … Ef aðrir, þeir sem okkur eru líkastir að menningu og efnahag, hafa svo góða reynslu, hví skyldum við þá óttast, að reynsla okkar yrði önnur og lakari?“

Þessi orð ættu að vera mörgum til umhugsunar á okkar tímum þegar enn á ný er tekist á um grundvallaratriði í samskiptum Íslendinga við aðrar þjóðir, þar birtist annars vegar alþjóðahyggja og hins vegar þjóðernishyggja. Það var eingangrunin sem drap íslenskt þjóðlíf í dróma um aldir. Víðtækt samstarf þjóða í milli er smáþjóð í NorðurAtlantshafi lífsnauðsyn, hvort heldur sem er á sviði menningar, mennta, landvarna eða viðskipta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nýr naflastrengur

Óttar Guðmundsson skrifar: Nýr naflastrengur
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Inga Sæland: Árásirnar á okkur grímulaust einelti – sjálfstæðismenn vilja fela eigin vandræði

Inga Sæland: Árásirnar á okkur grímulaust einelti – sjálfstæðismenn vilja fela eigin vandræði