Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins skrifaði greinina Nýtt eilífðarvandamamál, sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Þar ræðir hann um margumtalað Borgarlínu, en Sigmundur er ekki helsti aðdáandi hugmyndarinnar.
Hann segir að Borgarlínan sé vanhugsað verkefni sem er líklegt til að koma Reykjavíkurborg í fjárhagsvandræði.
„Vel er þekkt hvernig vanhugsuð innviðaverkefni koma sveitarfélögum og jafnvel heilu ríkjunum í langvarandi fjárhagsvandræði þar sem viðvarandi keðjuverkun leiðir til stigvaxandi útgjalda og hærri skatta. Borgarlínuhugmynd meirihlutans í Reykjavík hefur flest einkenni slíkra verkefna. Málið hefur verið sett á oddinn oftar en einu sinni í kosningabaráttu. Ekkert útlit var fyrir að borgaryfirvöldum tækist að koma íbúunum í þau vandræði sem verkefnið mun valda. Svo gerðust þau undur að ríkisstjórnin lét plata sig til að fjármagna aðalkosningaloforð Samfylkingarinnar í Reykjavík.“
Sigmundi finnst sérstakt að borgin stefni í Borgarlínu vegna fjárhagsstöðu og þá ræðir hann samband borgarinnar og ríkis sem honum finnst einnig torkennilegt.
„Þá var settur saman svokallaður samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins. Með samkomulaginu féllst ríkið á að stofna sérstakt opinbert hlutafélag, nýtt ríki í ríkinu með ótrúleg völd, sem hefði það hlutverk að gera kosningaloforð Samfylkingarinnar í Reykjavík að veruleika. Í því skyni myndi ríkið leggja til verðmætar eignir, Keldnalandið og jafnvel Íslandsbanka, og leggja ný gjöld á almenning. Gjöldin voru réttilega skírð tafagjöld en líklega töldu einhverjir auglýsingamenn nafngiftina of lýsandi og tafagjöldin voru endurskírð „flýtigjöld“
Markmiðið með þessu öllu er að koma á tvöföldu kerfi almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Núverandi kerfi gengur illa. Aðeins um þriðjungur tekna Strætó kemur frá farþegum, restin frá skattgreiðendum. Fyrir áratug var gert undarlegt samkomulag milli ríkisins og sveitarfélaganna um svokallað framkvæmdastopp. Gegn því að engar meiriháttar úrbætur yrðu gerðar í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu á kostnað ríkisins skyldi ríkið styrkja almenningssamgöngur um milljarð á ári.
Ríkið borgaði sem sagt fyrir að komið yrði í veg fyrir að ráðist yrði í nauðsynlegar úrbætur. Þetta merkilega samkomulag átti að skila því að nýting almenningssamgangna færi úr 4% í 8%. Nú liggur fyrir að árangurinn varð enginn. Umferðarteppur hafa reyndar aukist til muna vegna framkvæmdastoppsins (sem er árangur í huga sumra) en nýtingarhlutfall strætó er enn 4%.
Hvað gerði svo núverandi ríkisstjórn þegar hún sá að verkefnið hafði ekki skilað neinum árangri á áratug? Að sjálfsögðu ákvað hún að framlengja, nema nú til 12 ára. Til viðbótar var svo skrifað undir samkomulag þar sem ríkinu var allranáðarsamlegast heimilað að ráðast í ákveðnar samgönguúrbætur sem höfðu beðið árum eða áratugum saman gegn því að greiða lausnargjald í formi fjármögnunar Borgarlínu.“
Að mati Sigmundar er tilgangur borgarlínu einfaldlega að neyða fólk í strætó og þrengja að annari umferð. Þá vill hann meina að kostnaður Borgarlínu sé allt of mikill og að hún virðist eiga að kosta helmingi meira en gerð Sundarbrautar.
„Hinar langþráðu úrbætur á vegakerfinu og Borgarlínan haldast þó ekki í hendur. Því einn af helstu kostum Borgarlínunnar mun vera sá að þrengja að annarri umferð. Það er gert með því að taka tvær akreinar (eina í hvora átt) af nokkrum helstu samgönguæðum höfuðborgarsvæðisins. Einnig með því að fækka bílastæðum og veita Borgarlínunni forgang á öllum ljósum og koma þannig í veg fyrir langþráðar endurbætur á stýringu umferðarljósa.
Gerð er ágæt grein fyrir þessu í skýrslu danska ráðgjafarfyrirtækisins COWI. Fyrirtækið kom auga á þá augljósu staðreynd að eðli Reykjavíkur og nýtingarhlutfall almenningssamgangna leyfði ekki dýrt verkefni eins og Borgarlínunna. Því var útskýrt að það þyrfti að þrengja að annarri umferð, fækka bílastæðum o.s.frv. til að neyða fólk í strætó. Reyndar notuðu skýrsluhöfundar ekki orðið „neyða“ en í frumvörpum vegna málsins er ekki dregin dul á að markmið stefnunnar sé „neyslustýring“.
Eftir samskipti sín við ríkisstjórnina töldu borgaryfirvöld greinilega að afgreiðsla þingsins væri bara formsatriði því þegar hefur talsverður fjöldi fólks verið ráðinn til að vinna að verkefninu, ófáar glærukynningar verið birtar, sérstök sýning sett upp í Ráðhúsinu og hönnun sætanna sem eiga að vera í biðskýlunum kynnt.
Þótt búið sé að hanna sætin í biðskýlin er allt á huldu um kostnaðinn við verkefnið. Ekki liggur einu sinni fyrir hvernig ríki og borg ætla að haga hinni nýju gjaldtöku til að standa straum af framkvæmdakostnaðinum. Því hefur verið hent fram að framkvæmdin muni kosta um 80 milljarða króna (meira en tvöfalda kostnaðaráætlun Sundabrautar) en þar er byggt á erlendum áætlunum fyrir slík verkefni sem nánast undantekningarlaust hafa farið úr böndunum og jafnvel reynst fræg vandræðaverkefni. Dettur einhverjum í hug að í Reykjavík muni kostnaðaráætlun standast betur?“
Hann segir að það sem honum finnist undarlegast af öllu varði rekstraráætlun. Hann segir að enginn hafi hugmynd um hvað Borgarlína muni kosta. Að lokum segir hann að borgarbúar muni borga meira fyrir meiri tíma í umferðinni.
„Undarlegast af öllu er þó að ekki skuli liggja fyrir rekstraráætlun fyrir þetta risastóra verkefni. Hvernig getur það gerst að ríkið samþykki að selja verðmætar eignir almennings og leggja á nýja skatta til að fjármagna verkefni sem enginn virðist hafa hugmynd um hvað muni kosta að reka? Þó vitum við að til stendur að reka tvöfalt strætisvagnakerfi. Hefðbundnir vagnar varða reknir áfram og kostnaðurinn við þá, eina og sér, mun aukast þegar Borgarlínan bætist við (um a.m.k. tvo milljarða á ári) en kostnaðurinn við Borgarlínuna sjálfa bætist þar ofan á. Dettur einhverjum í hug að borgaryfirvöld muni ekki láta ríkið og skattgreiðendur bera rekstrarkostnaðinn til framtíðar?
Áformin lýsa tilraun til að ráðast í „samfélagsverkfræði“ án tillits til þarfa eða vilja borgarbúa. Afleiðingin verður sú að íbúar höfuðborgarsvæðisins munu þurfa að borga meira fyrir að sitja lengur fastir í umferðinni.“
Að lokum hrósar Sigmundur flokksfélögum sínum fyrir það hvernig þeir tóku á málinu. Hann segir að þó muni reynast erfitt að stöðva málið eins og staðan sé núna.
„Við þinglok tókst þingmönnum Miðflokksins, með erfiðismunum, að koma inn nokkrum fyrirvörum við verkefnið. Þeir varða m.a. kostnað, tryggingar varðandi Sundabraut og aðrar samgöngubætur, skipulagsmál Keldnalandsins, nýtt sjúkrahús og hömlur á hið nýja opinbera hlutafélag.
Fyrst og fremst eru breytingarnar til þess fallnar að styrkja stöðu stjórnvalda og kjósenda framtíðarinnar og auka líkurnar á að hægt verði að losna úr þessu óheillaverkefni, greiða fyrir umferð og reka almenningssamgöngur sem virka. Það mun hins vegar ekki gerast af sjálfu sér. Saga málsins og annarra sambærilegra til þessa sýnir að erfitt muni reynast að stoppa kerfið þegar það er búið að leggja línuna.“