ASÍ skorar á hið opinbera að efla heimildir til eftirlits með íbúðarhúsnæði og að refsiheimildir vegna launaþjófnaðar verði sett í lög. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sambandsins varðandi útgáfu á skýrslu Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála um aðstæður erlends starfsfólks í ferðaþjónustu. Í skýrslunni kemur fram að erlendu starfsfólki hafi fjölgað umtalsvert á skömmum tíma og miklar brotalamir hafi orðið til á íslenskum vinnumarkaði á þessum tíma. Þessar brotalamir snúa meðal annars að launamálum erlends starfsfólks, íbúðarmálum þeirra og ráðningarsambandi.
Talsverð umræða varð til um þennan málaflokk eftir brunann á Bræðraborgarstíg í þar síðustu viku. Þar hafði íbúðarhúsnæði verið útbúið þannig að fjöldi svefnrýma var hámarkaður og leigueiningarnar leigðar út sem íbúðarrými. Húsnæðið sem var í eigu HD verks hafði sætt gagnrýni lengi vegna ástands. HD verk á fleiri húsnæði og herma heimildir DV að þau hafi öll á eitthverjum tímapunkti hýst erlent verkafólk í aðstæðum sem verkalýðsfélög hafa gagnrýnt. DV greindi jafnframt frá því í síðustu viku að 122 mismunandi aðilar hafa eftirlit með ástandi iðnaðarhúsnæða hér á landi. Hinsvegar ber enginn ábyrgð á eftirliti með íbúðarhúsnæði, enda íbúðarhúsnæði ekki eftirlitsskylt eftir að byggingu þess lýkur. Byggingafulltrúi ber ábyrgð á leyfisveitingu um breytingar á mannvirkjum og breyttri notkun íbúðarhúsnæðis, en miklar brotalamir eru á því eftirliti.
María Lóa Friðjónsdóttir, verkefnastjóri Vinnustaðaeftirlits ASÍ, segir Verkalýðshreyfinguna ítrekað sökuð um lygar í þessum efnum og að fara offari í umfjöllun um kjör og aðstæður erlends verkafólks. „Skýrsla Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála er mikilvægt innlegg því hún sýnir svart á hvítu það sem fyrri úttektir og reynsla stéttarfélaganna hafa bent til, það er að réttur erlends launafólks í ferðaþjónustu er víða fyrir borð borinn. Þetta er fullkomlega í samræmi við þann veruleika sem við í Vinnustaðaeftirliti ASÍ höfum orðið vitni að og kallað eftir aðgerðum gegn,“ segir María.
Í tilkynningunni segir m.a.:
ASÍ skorar á ferðaþjónustufyrirtæki og samtök atvinnurekenda að axla þegar í stað ábyrgð á brotum gegn erlendu starfsfólki og fyrirbyggja slík brot til framtíðar, þar á meðal með því að tryggja fræðslu til rekstraraðila. ASÍ kallar eftir því að loforð Lífskjarasamninganna um lagalegar heimildir til refsinga vegna brota á kjarasamningum verði uppfyllt, enda er ólíðandi að slík brot, sem eru hreinn og klár þjófnaður, viðgangist refsilaust. Þá þarf að tryggja heimildir Vinnustaðaeftirlits stéttarfélaganna og opinberra eftirlitsaðila, þ. á m. slökkviliðs og heilbrigðiseftirlits, til að hafa eftirlit með húsnæði sem atvinnurekendur útvega starfsfólki.