Fréttablaðið skýrir frá þessu. Magnús var sakfelldur í Hæstarétti 2016 fyrir aðild að markaðsmisnotkun og umboðssvik í svonefndu Markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings. Hæstiréttur sneri þar dómi héraðsdóms við að hluta en héraðsdómur hafði vísað tveimur ákæruliðum frá og sýknað hann af öðrum ákærum.
Kæra Magnúsar til MDE byggir á að Ingveldur Einarsdóttir og Þorgeir Örlygsson, dómarar við Hæstarétt, hafi verið vanhæf til að dæma í málinu vegna starfa sona þeirra. Sonur Ingveldar var aðstoðarsaksóknari hjá Sérstökum saksóknara og sonur Þorgeirs var yfirlögfræðingur hjá slitastjórn Kaupþings.
MDE komst að þeirri niðurstöðu í Al Thanimálinu að hæfi Árna Kolbeinssonar, dómara, hafi ekki verið hafið yfir allan vafa þar sem sonur hans starfaði fyrir bankann fyrir og eftir gjaldþrot hans.
Í kæru Magnúsar er einnig vísað til hlutafjáreignar dómara í föllnu bönkunum og vísað til Viðars Más Matthíassonar, Ingveldar Einarsdóttur, Ólafs Barkar Þorvaldssonar og Markúsar Sigurbjörnssonar í því sambandi. Fréttablaðið segir ekki vitað til að aðrir en Ingveldur hafi átt hlutabréf í Kaupþingi fyrir hrun.