Hann sagðist einnig ánægður með hversu margir nýttu sér kosningarétt sinn því á brattanna hafi verið að sækja. Skoðanakannanir og andinn í samfélaginu hafi bent til að úrslitin væru ráðin fyrir kosningarnar og hafi kjörsóknin verið góð í því ljósi. Að ógleymdum heimsfaraldri kórónuveiru.
Hann sagði að úrslitin sýni að landsmenn vilji að hefðir og venjur séu virtar þegar forsetinn á í hlut og að sá eða sú sem situr hverju sinni á Bessastöðum hafi þeim skyldum að gegna að efla og styrkja það sem sameinar okkur, leitast við að hlusta á öll sjónarmið í samfélaginu og vera fastur fyrir þegar við á og geta tekið í taumana ef þörf krefur. Forsetinn þurfi að vera reiðubúinn til að stíga inn á hið pólitíska svið og taka í taumana þegar nauðsyn krefur en vera utan hins pólitíska sviðs frá degi til dags. Þar vísaði hann til hlutverks forsetans við stjórnarmyndanir og réttar hans til að synja lögum staðfestingar.
„Þetta er réttur sem hefur verið virkur og ber að horfa til þegar ótvíræður vilji er til þess í hugum kjósenda að forseti stígi inn með þeim hætti.“