Illkynja æxli er helsta dánarorsök Íslendinga, ásamt hjartasjúkdómum, samkvæmt tölfræðisamantekt Landlæknisembættisins fyrir árið 2019. Hefur það verið raunin um árabil.
Þar kemur einnig fram að þrátt fyrir að illkynja æxli séu algengasta dánarorsök landsmanna þá hafi aldursstöðluð dánartíðni vegna þeirra lækkað nokkuð frá árinu 1996. Er dánartíðnin heldur hærri meðal karla en kvenna en tíðnin hefur hins vegar lækkað meira hjá körlum heldur en konum undanfarna áratugi.
„Flestir karlmenn sem létust vegna krabbameina árið 2019, dóu vegna illkynja æxlis í blöðruhálskirtli og vegna illkynja æxlis í barkakýli, barka, berkju og lunga. Andlát flestra kvenna sem létust vegna krabbameina árið 2019 má rekja til illkynja æxlis í barkakýli, barka, berkju og lunga og til illkynja æxlis í brjósti,“
segir í samantektinni.
Að jafnaði deyja fleiri karlmenn af völdum hjartasjúkdóma heldur en konur:
„Aldursstöðluð dánartíðni hjartasjúkdóma hefur þó lækkað verulega frá árinu 1996 og á það bæði við um karla og konur. Meðal karla hefur aldursstöðluð dánartíðni vegna þessara sjúkdóma lækkað um tæplega 54% frá árinu 1996 en um tæplega 41% hjá konum á sama tímabili. Þessi jákvæða þróun síðustu áratuga skýrist að miklu leyti af breyttum og bættum lífsstíl en þó einnig af framförum í læknisfræðilegri meðferð. Á hitt ber að líta að á síðustu árum hefur orðið veruleg aukning á offitu og sykursýki af tegund II á Íslandi. Það, ásamt hækkandi meðalaldri þjóðarinnar, getur orðið til þess að verulega muni hægja á þeim árangri sem náðst hefur í baráttunni við hjartasjúkdóma,“
segir í samantektinni.
Dánartíðni þeirra sem látast hafa úr Alzheimersjúkdómnum hefur hækkað nokkuð undanfarin ár. Um síðustu aldamót létust 12 af hverjum 100 þúsund af þeim völdum, en í fyrra var tíðnin 48 á hverja 100 þúsund íbúa.
Tekið er fram að breytingar á skráningu dauðsfalla hafi einnig áhrif á hækkandi tíðni, en mestu muni um hækkandi lífaldur landsmanna.