Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, sagði í gær að útboðsmál Reykjavíkurborgar lyktuðu af spillingu, í tilefni af frétt Morgunblaðsins í gær þar sem greint var frá því að Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi formaður og utanríkisráðherra Samfylkingarinnar, væri stjórnarformaður Yutong Eurobus Scandinavia AB, umboðsaðila í kaupum Reykjavíkurborgar á rafmagnsvögnum frá fyrirtækinu.
Taldi hún augljóst að þar sem bæði Össur og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, sem væri í raun æðsti yfirmaður Strætó, væru báðir í Samfylkingunni, væru fnykur af málinu og Samfylkingin sæi um sína.
Sjá nánar: Segir málið lykta af spillingu vegna aðkomu Össurar – „Samfylkingin sér um sína“
Benedikt G. Guðmundsson, aðaleigandi Yutong umboðanna á Norðurlöndunum í gegnum félagið GTGroup ehf., óskaði eftir að birta athugasemdir sínar vegna fréttarinnar.
Þar segir Benedikt að Strætókaupin hafi verið gerð árið 2016 og að Össur hafi ekki verið fenginn til starfa fyrr en árið 2018:
„Ég vona að ég eyðileggi ekki góða sögu með sannleikanum en það eru nokkrir punktar sem rétt er að koma á framfæri:
1. Viðskiptin við Strætó bs. voru gerð í gegnum Íslenska félagið Yutong Eurobus ehf og um tveimur árum áður en við fengum Össur til að koma inn í þetta verkefni með okkur út frá Svíþjóð. Úlfur Björnsson er stjórnarformadur þess félags, frà stofnun þess 2006 og hann ásamt starfsmönnum Yutong Eurobus ehf. á heiðurinn ad því ad koma rafvæðingu af stað hjà Strætó Bs.
2. Það var ekki sjálfgefið að vinna þessi útboð og eða opna á að hægt væri að koma rafmagnsvögnum af stað í þetta verkefni en við erum mjög stolt að það skildi takast. Það besta er að það er ekki bara búið að minnka mengun stórlega heldur einnig spara rafmagnsvagnar milljónir á ári í rekstarskostnaði (rafmagnskostnaður vsà dísel og eða gasi). Það verða vonandi mun stærri skref tekin í rafvæðingu heldur en þessir 14 vagnar sem nú eru í gangi enda bæði rekstrarleg- og umherfisleg rök sem mæla med frekari rafvæðingu.
3. Með þessum kaupum þá varð Ísland og Strætó bs. leiðandi í rafvæðingu og það vakti miklu meiri athygli út fyrir landsteinana heldur en hér heima.
4. Við höfum unnið með Yutong síðan 2006 í allri Skandinavíu og við fáum Össur í lið með okkur árið 2018 löngu eftir að hann er hættur í pólitík. Það var fagnaðarefni ad fá hann í lið með okkur og njóta hans starfskrafta og þetta er verkefni sem að ég tel að flestir ættu að vera stoltir af. Það er bæði krefjandi og jákvætt ad draga úr mengun og taka þátt í þeim miklu umbreytingum að koma rafvæðingu og orkuskiptum í samgöngum af stad.
5. Ég er sammàla Vigdísi að útboðsmálum à Íslandi er því miður of oft ábátavant og við þekkjum þad betur en við vildum. Það er mikilvægt að opinberir aðilar vandi vel til verka. Við lögðum fram formlega kvörtun á sínum tíma sem tekið var tillit til enda voru þá gerðar kröfur um drægni sem engin rafmagnsvagn gat mögulega uppfyllt. Með þeim kröfum voru allir rafmagnsvagnar frá öllum framleiðendum útilokaðir. Slíkt samræmdist ekki utútboðslögum og tæpast stefnu ríkisstjórnarinnar um orkuskipti í samgöngum.
6. Útboð þetta var síður en svo sett upp fyrir rafmagnsvagna og lítið dæmi er að það var ekkert aukastig gefið fyrir að vera með mengunarlausa rafmagnsvagna en það voru 3 stig gefin fyrir að vera með dísel miðstöðvar sem að hægt væri að nota umhverfisvænni dísel olíu á. Við bættum því slíkum búnaði í vagnana til að uppfylla kröfur og til að ná hærri stigagjöf.
7. Fríverslunarsamningur millli Íslands og Kína skiptir almennt miklu máli og opnar mörg góð tækifæri í viðskiptum á milli Íslands og Kína en sá annars stórgóði og merkilegi samningur skiptir ekki máli í þessu tilfelli því að vagnar og rútur voru með öllu tollalausar löngu áður en fríverslunarsamningur kom til.
Að lokum, ég vonast til að misskilningur sem þessi skaði ekki gott verkefni sem byggt hefur verið upp med elju og heiðarleika síðan 2006. Verkefnið að rafvæða samgöngur á Íslandi er bæði stórt og krefjandi og við hvetjum til þess að öllum díselvögnum hjá Strætó bs verði skipt út innan 3 ára.
Slík umskipti eru bæði þjóðhagslega og umhverfislega hagstæð. „