„Ég ætla ekki að tala um heimsfaraldur Covid-19. Ég ætla hins vegar að tala um annan faraldur, sem veldur mun fleiri dauðsföllum en þessi veira. Þetta er faraldur sem ekki er mikið rætt um. Þetta er faraldur vanlíðunar og fíknar.“
Þetta sagði Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar í ræðu sinni á eldhúsumræðum sem nú fara fram á Alþingi. Hann líkti þeim hópi fólks sem að fellur frá vegna ofneyslu eða vegna sjálfsvíga við farþegaflugvél á milli Reykjavíkur og Akureyrar.
„Vegna þessa faraldurs deyr einn Íslendingur á um 12 daga fresti en það eru sjálfsvígin. Síðan deyr annar Íslendingur eftir aðra 12 daga vegna ofneyslu, og er það dapurt Norðurlandamet sem við eigum.
Þessi fjöldi er svo mikill að það væri eins og flugvél í innanlandsflugi milli Reykjavíkur og Akureyrar myndi hrapa á hverju einasta ári.
Þar að auki eiga Íslendingar heimsmet í neyslu þunglyndis- og kvíðastillandi lyfja. Þá stunda hundruð íslenskra ungmenna sjálfsskaða af einhverju tagi.“
Hann sagði að Íslendingar væru ekki bara að kljást við veiru heldur líka geðsjúkdóma og fíkn, sem dræpu líka. Hann sagði að hagvöxtur, landsframleiðsla og kaupmáttur skipti litlu máli í vanlíðan.
„Við sem samfélag erum núna að kljást saman við veiru. En við þurfum líka að berjast saman gegn vanlíðan, þunglyndi, einmanaleika og fíkn. Þessir sjúkdómar drepa líka.
Það er tómt mál að tala um hagvöxt, landsframleiðslu og kaupmátt ef okkur líður illa. Og það svo illa að á 6 daga fresti deyr einhver af okkur úr vanlíðan og fíkn.
Við í stjórnmálunum eigum því að ræða þessi mál miklu oftar en ég held að fá mál séu stærri en einmitt þau sem snerta sjálfa lífshamingjuna.“