Andrés Jónsson, eigandi Ráðgjafafyrirtækisins Góðra samskipta, hefur birt lista yfir þá 40 stjórnendur sem hann telur þá efnilegustu á landinu, undir 40 ára aldri. Er þetta í annað skipti sem listinn er gefinn út, en listinn verður gerður á tveggja ára fresti:
„Hugmyndin með listanum er að beina sjónum að ungu fólki sem er að ná eftirtektarverðum árangri á sviði stjórnunar og sem hefur fengið skjótan frama og góð tækifæri á sínu sviði. Á honum eru einstaklingar sem geta hugsanlega reynst fyrirmyndir fyrir ungt fólk sem stefnir hátt í atvinnulífinu en einnig hjálpar útgáfa hans okkur að fylgjast með öflugu fólki sem gæti komið við sögu hjá ráðningardeild Góðra samskipta,“
segir Andrés.
Andrés nefnir að ekki séu birtar tilnefningarnar, en segir ánægjulegt að 60% þeirra sem tilnefndir voru séu konur, sem sé ríflega þriðjungs aukning frá fyrri lista.
„Ekki er um vísindalega könnun að ræða en vonandi er þetta vísbending um að ungar konur í atvinnulífinu séu að fá meira rými en áður. Þess ber þó að geta að í kauphöllinni er staðan enn óbreytt, ekkert skráð fyrirtæki á Íslandi hefur ráðið konu í forstjórastarf síðustu ár.“
Andrés segir einnig að forstjórar séu fæstir undir fimmtugu í viðskiptalífinu:
„Þá kom einnig fram í samtölum okkar við stjórnarmenn og fjárfesta að leiðin sé að lengjast fyrir ungt fólk í viðskiptalífinu. Margir áttu í erfiðleikum með að nefna nokkurn yngri æðsta stjórnanda á nafn og þegar litið er yfir sviðið þá sést að þorri allra stjórnenda í efstu og næstefstu lögum viðskiptalífsins er í dag eldri en 40 ára. Þetta er breyting, áður fyrr þekktist að forstjórar væru sumir í kringum þrítugt. Nú eru þeir sjaldnast yngri en 50 ára.“
Þá er einnig birtur listi yfir 20 vonarstjörnur viðskiptalífsins:
„Vonarstjörnurnar er fólk sem var tilnefnt en komst ekki á aðallistann hjá okkur. Það gæti hins vegar í sumum tilfellum átt eftir að skjóta upp kollinum á honum innan fárra ára,“
segir á heimasíðu Góðra samskipta.