Aktivistinn Þorsteinn V. Einarsson hlaut á dögunum átta milljóna króna styrk frá Jafnréttissjóði, en hann heldur úti samfélagsmiðlinum Karlmennskan, hvar kastljósinu er varpað á birtingarmyndir karlmennskuhugmynda, en Þorsteinn vakti athygli fyrr á árinu er hann auglýsti eftir karlmönnum sem höfðu naugað eða beitt ofbeldi, til að fá innsýn inn í þeirra hugarheim og reynslu.
Þorsteinn er fyrrverandi varaþingmaður VG og var um það fjallað í Staksteinum Morgunblaðsins í gær, þar sem styrkurinn til hans var gerður tortryggilegur sökum tengsla hans við flokkinn.
Fyrirsögnin á Staksteinum er „Aktívisti VG fær framlag af skattfé“ og er sagt athyglisvert að varaþingmaður VG hefði þegið slíkan styrk til að skrifa pistla fyrir Stundina, en Þorsteinn verður í samstarfi með Stundinni með hlaðvarpsþætti. Sem kunnugt er hefur Stundin verið gagnrýnin á ritstjóra Morgunblaðsins, Davíð Oddson og þá hugmyndafræði sem hann stendur fyrir.
Í Staksteinum, sem jafnan eru ekki höfundamerktir, segir einnig:
„Sennilega þykir einhverjum skrýtið að það skuli vilja svo til að Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, hafi úthlutað varaþingmanninum og Stundinni þessum gæðum. Einhverjum gæti dottið í hug að þetta kynni jafnvel að vera óviðeigandi af ýmsum ástæðum, en sennilega verða ekki margir til að hafa orð á því, enda vitað að slíkt myndi kalla flóðbylgju fúkyrða frá „aktívistum“, jafnvel ríkisstyrktum, yfir viðkomandi.“
Þorsteinn vekur máls á Staksteinaskrifunum á Facebooksíðu sinni í dag, þar sem hann hrekur nokkrar staðreyndavillur og vísar allri meintri spillingu á bug.
Hann nefnir til dæmis að hann sé ekki lengur varaþingmaður VG og nefnir að forsætisráðherra komi hvergi að ferlinu við veitingu styrksins:
„Það telst víst ákveðin tegund viðurkenningar að vera umfjöllunarefni staksteina Moggans. Þessi samsæriskenning og ætluð spilling er töluvert langsótt samt:
1) Ég er ekki varaþingmaður og raunar hætti öllu starfi með Vg fyrir áramót.
2) Styrkurinn er fyrir verkefni Karlmennskunnar og ég vel með hverjum ég vil starfa með.
3) Ákvörðun styrks er tekin af fagráði (5 sérfræðingum) og stjórn sjóðsins (3 sérfræðingum) og því kemur Katrín ekki að ferlinu, nema til að afhenda á táknrænan hátt sem ráðherra jafnréttismála.
En ég þakka kveðjuna frá Hádegismóum og væri gjarnan til í samstarf. Var þetta ekki annars beiðni um það?“