Áratugalangt viðskiptasamband Icelandair og Boeing flugvélaframleiðandans mun líklega standa af sér erfiðleikana sem MAX hneykslið í bland við Covidkreppuna höfðu í för með sér.
Hinsvegar gæti Icelandair séð sér leik á borði með því að skipta einnig yfir í Airbus þotur, þar sem Boeing vélarnar eru komnar á aldur og nokkur óvissa ríkir um hvort þær MAX vélar sem Icelandair hafði pantað hjá Boeing, verði afhentar eða ekki.
Þetta er mat Kristjáns Sigurjónssonar, ritstjóra Túrista.is, sem fjallar um málið í dag.
Hann segir að fá flugfélög hafi nýtt sér réttinn til að falla frá kaupum á þotum frá Boeing, dragist afhending þeirra um meira en eitt ár, líkt og raunin hefur verið.
Icelandair pantaði alls 16 MAX þotur og voru sex teknar í gagnið áður en vélarnar voru kyrrsettar vegna flugslysa úti í heimi. Þrjár bíða afhendingar og eftir á að framleiða sjö í viðbót.
Alls á Boeing því eftir að afhenda 10 MAX þotur til Icelandair samkvæmt samningi, en Kristján segir engin svör hafa fengist um hvort til greina komi að Icelandair segi upp kaupsamningnum á þeim þotum. Ljóst er þó að afhendingarfresturinn er þegar liðinn á þremur þeirra.
Icelandair þarf að klára samninga við Boeing fyrir hlutafjárútboð félagsins í næsta mánuði.
Kristján segir að ef Icelandair vilji hætta við kaupin á þeim tíu þotum sem eftir á að afhenda, gæti það reynst félaginu erfitt:
„Þá verður að teljast ólíklegt að Boeing sleppi Icelandair auðveldlega. Sérstaklega í ljósi þess að þannig samkomulag væri ekki hægt að fela í bókhaldinu líkt og gert var með skaðabæturnar sem Boeing greiddi Icelandair í tvígang á síðasta ári vegna kyrrsetningarinnar. Þar með yrði það opinbert ef Icelandair myndi komast hjá núgildandi kaupsamningi og þá myndu sennilega stjórnendur fleiri flugfélaga vilja það sama og jafnvel meira. Staðreyndin er nefnilega sú að vegna kórónuveirukreppunnar sjá flugfélög fram á minni eftirspurn eftir ferðalögum og þar með er þörfin fyrir nýjar flugvélar minni en áður,“
segir Kristján og telur hæpið að Boeing gefi slíkt fordæmi með samningi við jafn lítinn viðskiptavin og Icelandair telst í samanburði við önur flugfélög, ekki síst þegar Boeing berjist fyrir lífi sínu í hinu slæma árferði.
Kristján nefnir að þó svo Icelandair fengi MAX vélarnar á hagstæðum kjörum, ætti þó eftir að yfirstíga mögulegan ótta farþega við að ferðast í þeim.
Þá séu aðrar þotur Icelandair komnar á aldur, eyði og mengi mikið og því gæti félagið freistast til þess að horfa til nýrri véla frá Airbus, en þær vélar þykja henta Icelandair betur:
„Þar með þarf Icelandair að halla sér að Airbus en þær flugvélar fást nú á mun betri kjörum en áður líkt og stjórnarformaður PLAY fullyrti í síðustu viku.“
Þá segir Kristján að Icelandair gæti valdið flugfélaginu Play vandræðum ef Airbus leiðin yrði farin:
„Í þeirri nauðvörn sem Icelandair er í núna þá gætu stjórnendur þess mögulega undirbúið sókn með því að boða þjálfun flugmanna og flugfreyja á Airbus A320 þotur. Þar með fengist vísbending um hvert félagið stefnir komist það í gegnum núverandi krísu.
Og ef samningar Icelandair við stéttarfélög flugmanna, flugfreyja og flugvirkja leyfa þá gæti félagið á sama tíma óskað eftir starfsfólki með réttindi á Airbus þotur og þannig valdið usla í röðum PLAY. Þetta fagfólk þyrfti þá að íhuga hvort betra væri að veðja á PLAY eða Icelandair.“
Samkvæmt heimildum Eyjunnar innan Icelandair henta Boeing 757 vélarnar Icelandair vel þessa stundina, meðan Airbus kosturinn sé meiri framtíðarmúsík, komist félagið úr þeirri krísu sem Covid-19 hefur haft í för með sér.
Eru MAX vélarnar sagðar verða góðar með tíð og tíma, meðan Airbus henti betur í önnur verkefni.