Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Um 80% karla telja að réttindi kynjanna séu jöfn en um 60% kvenna eru þeirrar skoðunar. Um 28% kvenna og 13% karla telja kynin ekki hafa jafnan rétt.
„Ég held að þessi stemning sem skilar sér í niðurstöðum könnunarinnar sýni að það hafa orðið raunverulegar framfarir í þessum málaflokki á síðustu árum og áratugum.“
Hefur Fréttablaðið eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra sem sagði margt hafa áunnist í jafnréttismálum á síðustu fjórum áratugum. Hún nefndi meðal annars leikskóla, fæðingarorlof og lög um jöfn laun kynjanna.
„Það hafa mörg raunveruleg skref verið stigin sem hafa skilað betra samfélagi. Ég tel nú samt ekki að fullu jafnrétti sé náð. Kannski er stóra forgangsmálið nú baráttan gegn kynbundnu ofbeldi.“
Sagði Katrín sem sagðist einnig telj að einstakir þættir geti haft mikil áhrif og nefndi það að hún telji að miklu skipti að kona hafi verið forseti í sextán ár.
„Nú er ég önnur konan sem gegnir embætti forsætisráðherra. Auðvitað er langt í land með að það verði jafnmargar konur og karlar sem hafa gegnt því embætti, en þróunin er svona í rétta átt.“