„Þegar fræðimenn segja um stjórnmálamenn eða stjórnmálaflokka að þeir séu að verða andlit spillingarinnar þá ætla ég að fá að lýsa þeirri skoðun minni að það sé ekki akademísk niðurstaða. Það er eitthvað allt annað.“
Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun þar sem fjallað var um mál hagfræðiprófessorsins Þorvalds Gylfasonar, sem fékk ekki ritstjórastöðu norræns fræðirits þar sem ráðuneyti Bjarna lagðist gegn því.
Bjarni var spurður hvort það væri eðlismunur á því hvernig stjórnmálamenn töluðu um fræðimenn og hvernig fræðimenn töluðu um valdhafa og hvort Þorvaldur hefði gengið of langt í gagnrýni sinni á Sjálfstæðisflokkinn.
Bjarni sagði varasamt að menn í valdastöðu væru að vega að fræðimönnum. En þegar fræðimenn færu inn á vettvang stjórnmálanna og gerðust þar „stórvirkir“ í dómum sínum um einstaklinga og stjórnmálaflokka, væru þeir að valda sér „sjálfsskaða“ sem fræðimenn, ekki síst þegar þeir gripu til samlíkinga við nasista og helförina:
„Það er mín niðurstaða, mín skoðun. Og þá eru menn líka um leið að gefa færi á því að það sé tekið á móti, því þá eru menn komnir út fyrir fræðistörf sín. Þá eru þeir komnir inn á nýtt svið, nýjan vettvang þjóðfélagsumræðunnar sem hefur ekkert endilega með akademíuna að gera.“
Þarna vísaði Bjarni til umdeildra ummæla Þorvaldar frá árinu 2018. Þá sagði Bjarni að fræðimenn sem væru í þessum sporum yrðu að þola þegar þeim væri svarað.
Sjá einnig: Þorvaldur Gylfason um Sjálfstæðismenn sem tala um lýðræði:„Eins og nasistar að auglýsa gasgrill“
Bjarni sagði einnig að málið liti allt eins út fyrir að kunningsskapur réði för, þegar Þorvaldi var boðin staðan. Vísaði hann til þess að Þorvaldur og fyrrverandi ritstjóri umrædds fræðatímarits, Lars Calmfors, þekktust frá árum áður:
„Ég ætla að leyfa mér að velta upp þeirri spurningu hér, af því að hér eru menn að segja að það sé nú ekki gott að pólitíkin komi of nálægt slíkum hlutum, hvort þarna kunni mögulega svona gamla góða kunningjasamfélagið hafa verið að störfum, svona tveir fullorðnir menn sem hafa þekkst lengi í gegnum áratugina, þeir ætla bara að ákveða þetta svona sín á milli,“
sagði Bjarni en áður hafði komið fram að yngri kona með reynslu af stefnumótun væri talin álitlegust af ráðuneytinu til að gegna ritstjórastarfinu sem Þorvaldur taldi sig hafa fengið.