fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
EyjanFréttir

Árangursrík blönduð leið út úr kreppu 2009-2013

Ritstjórn DV
Föstudaginn 12. júní 2020 09:06

Steingrímur J. Sigfússon

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðsend grein eftir Steingrím J. Sigfússon

Höfundur er um þessar mundir forseti Alþingis, en var m.a. fjármálaráðherra árin 2009-2011, efnahags- og viðskiptaráðherra og síðan atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra 2012-2013.

Björn Jón Bragason birtir í DV þann 6. júní grein undir fyrirsögninni; „Ómögulegt að skattleggja sig út úr kreppu“. Þá skoðun má hann hafa í friði fyrir mér en, það eru hins vegar tilteknar fullyrðingar Björns Jóns í áðurnefndri grein um hagstjórnarmistök og slakan árangur þáverandi ríkisstjórnar í glímunni við afleiðingar Hrunsins á árunum 2009 -2013 sem ganga svo þvert á tölulegar og skjalfestar staðreyndir, eru svo hrein öfugmæli, að kalla mætti hirðuleysi að láta þeim ómótmælt. Ekki síst nú þegar fram undan er augljóslega á næstu misserum val um leiðir til að takast á við þær skuldbindingar sem ríkissjóður Íslands er sem óðast að hnýta sér þessar vikurnar. Við slíkar aðstæður skiptir öllu máli að byggt sé á staðreyndum og vel ígrunduðum aðgerðum. Einnig má gjarnan læra af reynslunni, sögunni, eins og hægt er. En, þá verður að byggja á því sem raunverulega gerðist, því sem varð hin raunverulega útkoma en ekki bulli. Á örlagatímum í sögu þjóða er mikilvægar en nokkru sinni að hafa slagorðasmiðina og frasakóngana kyrfilega geymda í skottinu.

Í inngangi greinar sinnar fullyrðir Björn Jón að; „mestu skattahækkanir í manna minnum“ í tíð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna 2009-2013 (Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar í greininni), „hafi dregið úr framkvæmdavilja og frumkvæði fólks og fyrirtækja, enda finnast þess engin dæmi að ríkjum hafi tekist að skattleggja sig út úr kreppum.“ Og svo kemur; “Þrátt fyrir það hversu illa tókst til í efnahagsmálum í tíð þeirrar stjórnar eru ýmsir þingmenn enn við sama heygarðshornið“…o.s.frv. Aftar í greininni er svo fullyrt, og aftur án annars rökstuðnings en hefðbundinna nýfrjálshyggju- ystu hægri frasa að í tíð sömu ríkisstjórnar hafi; „verið framkvæmd dýrkeypt hagstjórnarmistök“.

Stóra myndin

Förum nú aðeins yfir stóru myndina. Ekki þarf að fjölyrða um hversu kolsvart útlitið var á haustmánuðum 2008 um það leiti og mánuðina og fyrstu misserin eftir að himnafaðirinn var beðin um að blessa landið. Hrunið á Íslandi náði heimsathygli enda var það af sérfræðingum talið nánast án fordæma í vestrænu, þróuðu hagkerfi. Ísland missti í reynd efnahagslegt sjálfstæði sitt um tíma, varð að leita sér utanaðkomandi aðstoðar og opinskátt var rætt um hættuna á þjóðargjaldþroti.

Tíu árum síðar, á áratugar afmæli hrunsins, blasti aldeilis önnur mynd við. Aftur vakti Ísland umtalsverða athygli á heimsvísu og nú fyrir vel heppnaða efnahagslega endurreisn. Er líklegt að svo vel hefði gengið ef eintóm mistök hefðu verði gerð fyrstu fjögur árin rúm? Er ekki nær lagi og örlítið stærra að viðurkenna að allar ríkisstjórnir sem komu við sögu þessa tímabils eigi sinn hlut í árangrinum, allt frá þeirri sem beitti sér fyrir setningu neyðarlaganna haustið 2008, þeirri sem glímdi við erfiðleikana lengst og meðan þeir voru mestir í fjögur ár og fjórum mánuðum betur og svo þær sem síðan hafa komið og tekið verkefnið mislengi áfram?

Blönduð leið með hvötum

Ætla mætti af sumum sem reyna að umskrifa söguna á pólitískum forsendum að ríkisstjórn áranna 2009-2013 hafi eingöngu beitt skattahækkunum í glímunni við að bjarga ríkissjóði frá þroti. Það er öðru nær. Strax vorið 2009 var sú stefna mótuð að fara blandaða leið tekjuöflunar og sparnaðar og um leið tekin sú mikilvæga ákvörðun að hefjast strax handa. Í júní flutti ég sem fjármálaráðherra frumvarp um fyrsta stóra aðgerðapakkann í ríkisfjármálum sem fól í sér aðgerðir til að draga úr geigvænlegum hallarekstri ríkissjóðs uppá á þriðja tug milljarða samtals á seinni helmingi ársins. Sem sagt, um 50 milljarðar á ársgrundvelli og síðan fylgdu umfangsmiklir, en þó smátt og smátt léttari aðgerðapakkar næstu þrennum, fernum fjárlögum. Í flestum þeirra voru hlutföll milli tekjuöflunar og sparnaðaraðgerða á svipuðum slóðum nálægt helmingi hvort.

Og svo var með útsjónarsemi reynt að örva hagkerfið samtímis, fjölga störfum og skapa vöxt. Þar má nefna að heimila úttekt séreignarsparnaðar, sem allt í senn auðveldaði þúsundum fjölskyldna að fleyta sér gegn um erfiðleikana (foreldrar gátu aðstoðað börn sín o.s.frv.), hafði jákvæð eftirspurnaráhrif og skilaði ríki og sveitarfélögum tekjum.  Átakið „allir vinna“ , sem sagt 100% endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu við endurbætur íbúðarhúsnæðis og sumarhúsa gekk mjög vel. Það og t.d. sú ákvörðun að ráðast í stórframkvæmdina byggingu Hörpunnar ásamt umfangsmiklum samgönguframkvæmdum sem héldu áfram á fyrri hluta tímabilsins skapaði viðspyrnu í bygginga- og mannvirkjageiranum. Nýsköpunarumhverfið var bætt og komið á kerfi endurgreiðslna rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunar- og sprotafyrirtækja. Það þurfti sem sagt vinstri stjórn og eitt stykki Hrun til að hrinda því í framkvæmd sem lengi hafði verið talað um og engum dytti í hug að vera án í dag. Stutt var við vöxt skapandi greina og síðast en ekki síst veðjað á ferðaþjónustuna sem þá grein sem gæti vaxið hratt, án mikils stofnkostnaðar og beinna náttúrulegra takamarkana, og fært okkur gjaldeyristekjur og skapað störf. Markaðsátakið „inspired by Iceland!“ og seinna „Ísland allt árið“, var fjármagnað krónu á móti krónu af ríkinu og greininni og var geysilega árangursríkt.

Í stuttri blaðagrein er að sjálfsögðu aðeins hægt að tæpa á örfáum atriðum, nánast gefa sýnishorn, af þeim gríðarmiklu beinu og óbeinu ráðstöfunum í efnahags- og ríkisfjármálum sem gripið var til. Hvað þá að nefna allt það annað sem sinna þurfti, svo sem að endurreisa og endurfjármagna eitt stykki fjármálakerfi, glíma við skuldavanda heimila, fyrirtækja og sveitarfélaga, eða þá hinar viðamiklu menntunar og vinnumarkaðsaðgerðir. En allt tengist það og er hluti af grunninum sem var lagður og upp af hverjum hefur vaxið efnahagsleg endurreisn Íslands efir Hrun.

Alþjóðlega er almennt viðurkennt að Ísland fór sína eigin leið út úr kreppunni, hún var óhefðbundin (unorthodox), byrðunum var dreift með félagslega meðvituðum hætti og viðkvæmum hópum hlíft eftir föngum, sbr. t.d. niðurstöður úttektar Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Og, aðferð Íslands var mjög árangursrík og skjótvirk.

Hvað segja mælarnir?

Og lítum þá á nokkrar tölulegar staðreyndir sem væntanlega gefa áreiðanlegri vitnisburð en gildishlaðnir og/eða pólitískir dómar.

Ríkisfjármál

Halli ríkissjóðs var 216 milljarðar króna árið 2008 á verðlagi þess árs, milli 13 og 14% af vergri landsframleiðslu. Halli ársins 2009 stefndi í um 170 milljarða en með viðamiklum aðgerðum á miðju ári, eins og áður kom fram, náðist hann niður í 140 milljarða, rétt undir 10% af VLF. 2010 fer hallinn niður í 123 milljarða, 2011 í 89 og það ár náðist frumjöfnuður. Þ.e. rekstur ríkissjóðs að frátöldum fjármagnstekjum og fjármagnsgjöldum var kominn í jafnvægi. Það var annað stóra markmið ríkisfjármálastefnunnar á kjörtímabilinu og náðist ári fyrr en upphaflega stóð til. Hitt var að ná heildarjöfnuði árið 2013 sem einnig náðist langleiðina.  Bið ég þá að nefna mér dæmin ef einhverjir kunna um árangursríkari og hraðari viðsnúning eins ríkissjóðs úr geigvænlegum hallarekstri í jöfnuð.

Hagvöxtur

Íslenska hagkerfið skrapp saman um nálægt 10% samtals á árunum 2009-2010. Engu að síður sneri hagkerfið við úr samdrætti í jafnvægi og svo vöxt á síðari hluta ársins 2010. Þ.e. við tókum að spyrna okkur af botninum strax á öðru ári kreppunnar. Árið 2011 var vel viðunandi hagvöxtur eða 1,9%. Hagvöxtur hélt áfram en var nokkru minni 2012, eða 1,3% en það ár jókst einkaneysla þó um 2,0%. og síðan tók við kraftmeiri hagvöxtur að nýju 2013 eða 4,1%.  Sem sagt aðgerðir í efnahags- og ríkisfjármálum, þ.m.t. tekjuöflunaraðgerðir, komu ekki í veg fyrir hagvöxt eins og margir hrakspámenn þessara ára héldu fram (og sumir gera enn þvert á staðreyndir sbr. Björn Jón) heldur lögðu góðan grunn að honum.

Atvinnuleysi

Stóraukið atvinnuleysi var ein átakanlegasta birtingarmynd hrunsins, eins og reyndar yfirleitt er í hvers kyns fjármálaáföllum og kreppum. Sinn fyrsta mánuð, í febrúar 2009, fékk ríkisstjórn Samfylkingar og VG, minnihlutastjórnin, 8,2% skráð atvinnuleysi í arf. Atvinnuleysi fór hæst í 9,3% veturinn eftir, en lækkaði síðan skarpt og stóð í 3,9% í júní 2013, fyrsta mánuðinn sem næsta ríkisstjórn var við völd. Rétt og skylt er að hafa árstíðabundnu sveifluna í huga, en heilsárstölur Vinnumálastofnunar um skráð atvinnuleysi yfir þennan tíma eru; 2009 8,0%, 2010 8,1%, 2011 7,4%, 2012 5,8% og 2013 4,4%. Sem sagt, atvinnuleysi nálægt helmingaðist á kjörtímabilinu.

Kaupmáttur launa

Frá botni kreppunnar vorið 2010 og til vors 2013 jókst kaupmáttur launa um 7,5% og gegn um allt hið erfiða tímabil var það kaupmáttur tekjulægstu tíundarinnar sem best var varinn. Kaupmáttur launa vorið 2013 var aftur orðin svipaður og hann var á síðari hluta árs 2008. Hrunið eða kreppan var á þennan mælikvarða gengin að fullu til baka í lok kjörtímabilsins. Það tók hagkerfið í heild eitt til eitt og hálft ár í viðbót að vinna upp höggið, en það náði u.þ.b. fyrri stærð á árinu 2015.

Gengi, vextir og verðbólga

Gengishrun krónunnar á árinu 2008 leiddi af sér óumflýjanlegt verðbólguskot og var verðbólga yfir 18% í byrjun árs 2009. Verðbólga lækkaði fljótlega og var á síðari hluta kjörtímabilsins á bilinu 2-4%.

Vextir Seðlabankans voru 18% í ársbyrjun 2009 en einnig þeir lækkuðu hratt og voru frá rúmlega 4 og upp í 6% mest allt kjörtímabilið.

Gengið styrktist jafnt og þétt, vissulega á bak við gjaldeyrishöft, en þar skipti mestu góður afgangur af viðskiptum við útlönd sem leysti af hólmi hinn króníska viðskiptahalla áranna fyrir hrun sem var, eins og kom í ljós, langt kominn með að sökkva landinu í skuldum.

Saman dregið þetta

Alger viðsnúningur í ríkisfjármálum á kjörtímabilinu 2009-2013, úr stórfelldum halla sem á fáeinum árum hefði sett ríkissjóð á hausinn í nær jöfnuð. Ágætur hagvöxtur þrjú síðari ár tímabilsins. Atvinnuleysi nær helmingaðist á tímabilinu og ný störf urðu til í takti við það og reyndar rúmlega, því eftir hina sögulegu fækkun landsmanna árið 2009 fjölgaði fólki öll árin. Ágætis gengis- og verðstöðugleiki, myndarlegur afgangur af viðskiptum við útlönd. Skerðing kaupmáttar frá 2008 að fullu gengin til baka vorið 2013 og hagkerfið hafði náð fyrri stærð einu og hálfu ári síðar.

Tvennt skal svo áréttað. Enginn má nokkru sinni fara að trúa því að þetta hafi verið auðvelt og án fórna. Þrátt fyrir góðan vilja urðu ýmsir illa úti og bera enn ör eftir þessa tíma. Til þess er sárt að hugsa af því það voru mannanna verk sem leiddu þessar hörmungar yfir okkur. Hér var ekki á ferðinni ósýnilegur óvinur úr ríki náttúrunnar.

Hinu ber svo að halda til haga að árin eftir stjórnarskipti 2013 og allt til þess að byrinn var tekið að lægja á síðasta ári (og þó nú blási á móti) voru okkur skínandi hagfelld, og við komin í aldeilis lygilega góða stöðu miðað við svartnættið sem við okkur blasti 2008-9. Þetta skulum við og eigum við svo sannarlega að þakka fyrir nú þegar við þurfum aftur á öllu okkar að halda.

 

Útdráttur úr greininni birtist í nýjasta helgarblaði DV.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum

Allt brjálað í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði – Byggðu íbúð í geymslunum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“

Einar bað Boga afsökunar – „Enda er þetta kolrangt hjá honum“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við

Tók pizzaofninn með við lok leigutíma og olli skemmdum á húsnæðinu – Sveik loforð um þrif en sagðist þó hafa skilað í betra standi en hann tók við
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“

Óvenjulegt þjófnaðarmál í Grímsnesi: „Við höfum aldrei áður lent í neinu þessu líku“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður

Fullyrt að Kristrún verði forsætisráðherra og eitt ráðuneyti verði lagt niður
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng

Enn einn Snapchat-perrinn ákærður – Braut gegn 13 ára dreng
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vaxtamálið fer fyrir Hæstarétt

Vaxtamálið fer fyrir Hæstarétt