Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segist ekki ætla að verja lífskjarasamninginn og því sé hann fallinn. Mbl.is greinir frá, en Ragnar lét þessa skoðun í ljós á fundi með þjóðhagsráði í gær.
„Miðað við stöðuna eru lífskjarasamningarnir fallnir. Við munum ekki verja samninginn miðað við óbreytta stöðu,“ segir Ragnar við mbl.is.
Ástæðan er að ríkisstjórnin hafi ekki staðið við loforð um að afnema 40 ára verðtryggð jafngreiðslulán, né loforð um hlutdeildarlán.
„Staða þessara tveggja mála gerir það að verkum að samningarnir eru fallnir. Ábyrgðin er ríkisstjórnarinnar og fjármálaráðuneytisins. Ég er búinn að hafa samband við félaga okkar í Eflingu til að funda um stöðuna og mögulegar aðgerðir í haust.“
Ragnar segir undarlegt að ríkisstjórnin vilji fara þessa leið:
„Það þarf að ræða framhaldið og næstu skref. Þegar traustið er ekki til staðar er ekki von á góðu. Því miður. Ég skil ekki ríkisstjórnina að fara með verkalýðshreyfinguna í fanginu inn í næstu þingkosningar. Það er dapurlegt að horfa upp á að lífskjarasamningarnir skuli falla á vanefndum ríkisstjórnarinnar sem er að leita eftir trausti til að vinna sig í gegnum kórónukreppuna. Það er mjög dapurleg niðurstaða,“
segir Ragnar Þór. Hann minnir á að hinn 1. september virkist endurskoðunarákvæði lífskjarasamningsins þar sem þróun kaupmáttar og efndir stjórnvalda vegna samningsins verða tekin til endurskoðunar.