Til snarpra orðaskipta kom á milli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og fréttamanns RÚV er Bjarni veitti viðtal vegna máls Þorvaldar Gylfasonar hagfræðings. Bjarni lagðist gegn ráðningu Þorvaldar sem ritstjóra fræðatímaritsins Nordic Economic Policy Review. Málið hefur vakið mikla athygli og deilur en Kjarninn greindi fyrst frá því í gær.
Norrænu fjármálaráðuneytin gefa út og kosta tímaritið í samstarfi við rannsóknastofnunina Nordregio, sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina. Þorvaldur segir að starfsmaður Norrænu ráðherranefndarinnar hafi kannað áhuga hans á að þiggja stöðuna en hann hafi síðan orðið af henni vegna þess að fjármálaráðuneytið lagðist gegn ráðningu hans á þeim forsendum að hann væri of pólitískur.
Margir hafa fordæmt harðlega afskipti Bjarna af málinu, meðal annars Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Helga Vala Helgadóttir, þingmaður flokksins.
Í viðtalinu við RÚV benti Bjarni á að Þorvaldur hefði engan rétt á þessari stöðu og fjármálaráðuneytið hefði fullan rétt á því að hafa áhrif á hver hlyti hana enda kostaði það útgáfuna og ætti í samstarfi við ritstjórnina um efnistök. Um Þorvald sagði hann:
„Ég tel að hann sé ekki heppilegur samstarfsaðili fyrir okkur. Með hans digru yfirlýsingum á undanförnum árum hafi hann mjög vel sýnt það í verkefni að hann hefur hvorki stutt ríkisstjórnir sem hér hafa setið, harkalega mótmælt þeim. Við vildum einfaldlega í fyrsta lagi leggja til konu sem við settum fram sem okkar fyrsta valkost. Við vildum fá yngra fólk. Það eru margir aðrir valkostir en Þorvaldur.“
Fréttamaður spurði Bjarna hvort ekki væri vegið að akademísku frelsi fræðimanns með því að leggjst gegn því að Þorvaldur yrði ritstjóri, og svaraði Bjarni:
„Fyrirgefðu. Hér er um að ræða ritstjórn. Það eru engar hæfniskröfur gerðar. Þorvaldur Gylfason hefur sitt akademíska frelsi algjörlega óskert. Hann hefur hins vegar engan sjálfstæðan rétt til að vera tilnefndur minn fulltrúi inn í ritstjórn þessa tímarits þó svo hann sé prófessor og vel hæfur til að skrifa fræðigreinar. Það gefur honum ekki rétt til þess að fá úthlutað stöðu sem hann hefur áhuga á. Það var aldrei mín tillaga. Það var aldrei tillaga íslenska ráðuneytisins. Þó að einhverjum hafi dottið í hug í þessu samstarfi að nefna hans nafn þá skapar það engan sjálfstæðan rétt hans til að fá stöðu sem ekki einu sinni hefur verið auglýst. Hvað með alla aðra sem höfðu áhuga? Ég skil bara ekki hvað akademískt frelsi hefur nokkuð með þetta að gera.“
Bjarni sakaði fjölmiðla um rangfærslur í fréttaflutningi af málinu. „Hvaða rangfærslur ertu að tala um?“ spurði fréttamaður og spruttu af þessu nokkuð hvöss orðaskipti. Bjarni svaraði því til að fjölmiðlar hefðu látið hjá líða að færa málið í það eðlilega samhengi að það kæmi fram að fjármálaráðuneytið kostaði útgáfuna og ætti að hafa um efnistök ritsins að segja. Fréttamaður sagði að eitt væri að færa ekki í rétt samhengi og rangfærslur væru annað. Var tekist á um þetta nokkra stund í viðtalinu.
Bjarni vildi ekki gefa upp nöfn þeirra sem fjármálaráðuneytið hefur mælt með í starfið en sagði að ráðuneytið hefði helst viljað fá konu til starfans.