Óvíða í heiminum eru skattar jafnháir og hér á landi. Mikillar hagræðingar er þörf í opinberum rekstri. Ráðdeild er ekki í tísku.
Í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar árin 2009–2013, urðu mestu skattahækkanir í manna minnum, sem drógu úr framkvæmdavilja og frumkvæði fólks og fyrirtækja, enda finnast þess engin dæmi að ríkjum hafi tekist að skattleggja sig út úr kreppum. Þrátt fyrir það hversu illa tókst til í efnahagsmálum í tíð þeirrar stjórnar, eru ýmsir þingmenn enn við sama heygarðshornið. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, lagði meðal annars til í þætti Heimis Más Péturssonar, Víglínunni á Stöð 2, 24. maí síðastliðinn að svokallaður auðlegðarskattur yrði tekinn upp á nýjan leik.
Flest nágrannaríkjanna hafa fyrir löngu horfið frá eignasköttum þar sem þeir taka venjulega ekki mið af greiðslugetu eða afkomu. Þau fáu ríki Vesturlanda sem enn búa við skatta af þessu tagi takmarka þá jafnan við heildartekjur og skattbyrði viðkomandi.
Engir slíkir varnaglar voru slegnir hér þegar skatturinn var lagður á í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms og þess voru mörg dæmi að fólk með lágar tekjur yrði að selja íbúðir sínar til að eiga fyrir skattinum, fasteignir sem það hafði unnið fyrir hörðum höndum alla sína starfsævi.
Lítið fór fyrir stuðningsmönnum almennra mannréttinda í umræðu um auðlegðarskattinn, en eðlilegt er að spyrja hvar mörk skattheimtu og friðhelgi eignarréttar liggi. Í fyrirhuguðum stjórnarskrárbreytingum er brýnt að tryggja betri vernd eignarréttar með því að takmarka skattlagningarvald.
Tilefni ummæla Rósu Bjarkar um upptöku auðlegðarskatts voru fréttir um fyrirframgreiddan arf nokkurra erfingja sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja. Í kjölfarið hafa ýmsir talað fyrir hækkun erfðafjárskatts, en í Bandaríkjunum þar sem erfðafjárskattar eru háir, hafa ríkustu fjölskyldurnar ýmis ráð til að komast hjá skattgreiðslum, til að mynda með því að færa eignir í félög.
Helgi Tómasson, prófessor í hagrannsóknum og tölfræði, var gestur minn í fréttaþættinum 21 á Hringbraut í fyrra þar sem erfðafjárskatt bar á góma. Þar benti hann á að Svíþjóð hefði aflagt erfðafjárskatt einfaldlega vegna þess að skatturinn kemur illa við lágtekjufólk sem hefur lítil færi á að skipuleggja sig. Það yrði að selja eignir í miklum flýti til að eiga fyrir skattinum.
Norðmenn hafa sömuleiðis afnumið skattinn, en í Danmörku er hægt að fresta greiðslu erfðafjárskatts, til dæmis ef erfingjar telja tímann óhagstæðan til að selja eignir. Helgi Tómasson komst svo að orði í viðtalinu: „Meðan uppgjör var þvingað innan árs, var skapað tækifæri fyrir hrægammafyrirtæki sem eltu uppi lágtekjufólk sem hafði erft eitthvað, og vissu að það væri þvingað til að selja.“
Fjölmargir skattar hafa verið hækkaðir undanfarin ár, má þar nefna tryggingagjald, tekjuskatt fyrirtækja, tekjuskatt einstaklinga, fjármagnstekjuskatt, bankaskatt, sérstakan fjársýsluskatt, almennan fjársýsluskatt, veiðigjald, gistináttaskatt og kolefnisgjald.
Sveitarfélögin hafa sömuleiðis flest fullnýtt heimildir sínar til álagningar útsvars og fasteignaskatta. Milli áranna 2012 og 2018 hækkuðu skatttekjur Reykjavíkurborgar um 48% umfram verðlag, en á sama tíma jukust skuldirnar um 63%, þrátt fyrir uppgang í þjóðfélaginu. Flækjustig skattheimtu hefur líka aukist síðustu árin.
Samkvæmt úttekt Viðskiptaráðs voru gerðar 267 skattabreytingar milli áranna 2007 og 2018. Um 200 þeirra voru til hækkunar en aðeins 67 til lækkunar. Helgi Tómasson sagði í áðurnefndu viðtali að fyrirkomulag skattheimtu ætti ekki að snúast um vinstri eða hægripólitík og gagnrýndi þar sérstaklega innheimtu fasteignagjalda:
„Þetta er bara spurning um skilvirka skattastefnu. Best er að hafa skattana sem skilvirkasta, svo þeir komi inn í ríkissjóð með sem ódýrustum hætti á sama hátt og við viljum keyra um á sparneytnum bíl: Við viljum ekki eyða óþarfa bensíni í aksturinn og það á ekki að þurfa að eyða of miklu umstangi í skattheimtuna.“
Þrátt fyrir stóraukna skattpíningu hefur afgangur af opinberum rekstri verið fremur takmarkaður. Lítið sem ekkert fer fyrir hagræðingartillögum í stjórnmálaumræðunni. Það er eins og ráðdeild og sparnaður séu ekki lengur í tísku. Þvert á móti er helsta Óvíða í heiminum eru skattar jafnháir og hér á landi. Mikillar hagræðingar er þörf í opinberum rekstri. Ráðdeild er ekki í tísku. gagnrýni sem fram kemur á fjárlög hverju sinni, að ekki sé nægilega miklum fjármunum veitt í hinn eða þennan málaflokkinn. Og þó svo að aldrei hafi jafnmiklir fjármunir verið til í þjóðfélaginu, hefur aldrei jafnhástöfum verið kvartað undan skorti á peningum. Við blasir að hið opinbera hefur fyrir löngu færst miklu meira í fang en því er nokkurn tímann fært að sinna.
Í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur voru framkvæmd dýrkeypt hagstjórnarmistök. Þau fólust í stóraukinni skattlagningu á sama tíma og hagkerfið gekk í gegnum dýpstu kreppu í áratugi. Samdráttarskeiðið var þannig framlengt að ófyrirsynju. Þetta má ekki endurtaka sig. Engin leið er að viðhalda og auka velmegun hér á landi nema atvinnulíf fái að dafna. Nauðsynleg forsenda þess er bætt rekstrarumhverfi fólks og fyrirtækja í formi lægri skatta og einfaldara regluverks. Á sama tíma verður ekki hjá því komist að hagræða í rekstri ríkis og sveitarfélaga.
Greinin birtist fyrst í helgarblaði DV.