Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, fékk ekki starf ritstjóra norræna fræðatímaritsins Nordic Economic Policy Review sem honum hafði verið boðið, vegna inngrips fjármála – og efnahagsráðuneytisins, sem sagðist ekki geta stutt ráðningu hans vegna pólitískra tengsla hans við stjórnmálaaflið Lýðræðisvaktina, sem Þorvaldur hætti í árið 2013. Þetta kemur fram í tölvupóstsamskiptum ráðuneytisins við Norrænu ráðherranefndina, sem Þorvaldur fékk afhent á grundvelli upplýsingalaga og Kjarninn greinir frá.
Þorvaldi var tilkynnt þann 13. nóvember að hann myndi ekki fá starfið og telur hann að rangfærslur fjármálaráðuneytisins sé ástæðan, enda hafi ráðuneytið ekki séð sér fært að mæla með honum í starfið sökum hinna meintu pólitísku tengsla:
„Það er rétt – hann nýtur ekki okkar stuðnings,“ segir íslenskur embættismaður í tölvupósti til finnsks kollega síns þann 8. nóvember síðastliðinn, án þess að rökstyðja skoðun sína. Hún kom þremur dögum síðar:
„Þorvaldur er virkur í stjórnmálum. Hann hefur verið, og er ennþá eftir því sem við best vitum, formaður Lýðræðisvaktarinnar. Við teljum ekki viðeigandi að manneskja sem er svo virk í stjórnmálum, hvað þá einhver sem veitir stjórnmálaafli formennsku, sé ritstjóri NEPR,“
segir síðan í tölvupósti hins íslenska embættismanns frá 11. nóvember, þar sem mælt er með Friðriki Má Baldurssyni í starfið, sem er forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík.
Þorvaldur telur einsýnt að þetta hafi orðið til þess að hann fékk ekki starfið, sem hann taldi sig þó hafa fengið, og hyggst hann sækja rétt sinn í málinu, þar sem atvinnuboðið hafi verið ígildi bindandi samnings. Krefst hann skaðabóta vegna málsins.
Þá segir Þorvaldur við Kjarnann að honum hafi hvorki borist afsökunarbeiðni, né staðfesting frá fjármálaráðuneytinu á því að ráðuneytið hafi leiðrétt rangfærslurnar um stjórnmálaþátttöku hans, líkt og ráðuneytið hafi borið við.
Samkvæmt Kjarnanum verður Harry Flam, hagfræðiprófessor við Stokkhólmsháskóla, næsti ritstjóri blaðsins.
Þingmaður Samfylkingarinnar, Helga Vala Helgadóttir, tjáir sig um málið á Facebook.
„Það er nákvæmlega svona sem Sjálfstæðisflokkurinn starfar. Ef þú ert ekki með þeim í liði þá ertu of pólitískur. Þetta gerir það að verkum að meginþorri lögmanna, hagfræðinga og annarra sérfræðinga um ýmislegt er varðað getur stjórnarhætti veigra sér við að tjá sig.“
Helga telur þetta einnig gera það að verkum að fjölmiðlafólk hiki frekar en að fjalla um mál.
„Það er líka þess vegna sem þeir sem tjá sig fá spurninguna: „Hvernig þorirðu að taka þennan slag?“. Það er vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hikar ekki við að reyna að hafa störf af heiðvirðu fólki eða e.a. koma í veg fyrir slíka stöðuveitingar.
Sjálfstæðisflokkurinn er í ríkisstjórn í boði VG. Við skulum muna það.“