Eiríkur Bergmann, stjórnmálafræðiprófessor við Háskóla Íslands, segir við mbl.is að kjörsókn í forsetakosningunum gæti orðið dræmari í ár en árið 2016. Hluti ástæðunnar sé að stuðningsmenn Guðna Th. Jóhannessonar forseta, ofmeti þann mikla mun sem mældist milli Guðna og Guðmundar Franklín Jónssonar í könnun Gallup á dögunum, þar sem Guðni fékk 90% stuðning en Guðmundur 10%.
Hann segir Guðmund geta fengið stuðning úr þremur áttum:
„Sá hópur sem hefur verið í andstöðu við þetta hefðbundna frjálslynda lýðræði Vesturlanda á undanförnum árum og hefur viljað sjá ákveðna valkosti við það stjórnmálakerfi allt saman,“ segir hann. Hópurinn kunni að styðjast við íhaldssamari og þjóðernissinnaðri áherslur en aðrir hópar. Síðan er ákveðin þögul andstaða gegn Guðna og þessum frjálslyndu meginstraumsgildum, í anda sem maður heyrir ekki mikið en er til staðar. Það gæti verið hópur sem kysi gegn Guðmundi. Þriðji þátturinn í þessu er mögulega sá að kjósendur Guðmundar telji sig fremur eiga erindi á kjörstað. Þeir séu jafnvel á einhvern hátt staðfastari. Og margir stuðningsmenn Guðna gætu reynst værukærir og talið að að honum steðji engin sérstök ógn í þessum kosningum,“
segir Eiríkur við mbl.is.
Kjörsókn árið 2016 var 75,7 prósent en árið 2012 var kjörsóknin 69,3 prósent.
Kosið verður þann 27. júní næstkomandi.