fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Líf segir gas- og jarðgerðarstöð Sorpu fullkomna – „Ég verð eiginlega bara að stöðva Eyþór“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Þriðjudaginn 9. júní 2020 11:57

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gas- og jarðgerðarstöð Sorpu, eða Gaja eins og hún er kölluð, verður tekin í gagnið eftir nokkra daga. Mikið hefur verið fjallað um stöðina vegna gífurlegrar framúrkeyrslu í kostnaði og sökum gagnrýni á tæknina og moltuna sem stöðin kemur til með að framleiða.

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi og varaformaður stjórnar Sorpu og Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, tókust hart á um málið í þættinum 21 á Hringbraut í gærkvöldi. Einnig var fjallað um málið á vef Hringbrautar. 

Ósanngjörn gagnrýni

Þar kvað Líf gagnrýni á stöðina ósanngjarna. Um sé að ræða risastóra framkvæmd, þá stærstu sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafi ráðist í á 20. öldinni og gífurlega mikilvæg fyrir umhverfisvernd. Hins vegar sé það rétt að verkefnið hafi keyrt fram úr áætlunum en við því hafi verið brugðist.

„Við, núverandi stjórn, fylgdumst með enda gripum við í taumanna og settum allt af stað bæði varðandi endurskipulagningu fyrirtækisins og fjármögnunar og þar fram eftir götunum sem er á lokametrunum“

Líf benti einnig á að það sé ekki stjórnarmeirihlutinn í borginni sem beri einn ábyrgð á málinu.

„Kannski má rekja málið allt til 2006 þegar Sjálfstæðisflokkurinn er við stjórn í borginni en hann kemur auðvitað í upphafi að þessari ákvörðun sem við samþykkjum þannig að ábyrgðin liggur ekki bara hjá einni stjórn afmarkaðri, núverandi kjörtímabili heldur er ábyrgðin margþætt.“

Eyþór sagði þá að það sé meira en framúrkeyrslan í fjármálum sem skipti máli. Stöðin muni ekki geta skilað af sér nægilega góðri afurð þar sem borgin hafi ekki staðið sig nægilega vel í því að flokka sorp.  Eins sé Reykjavíkurborg að urða mun meira af Sorpi heldur en Gaja mun ráða við. Stöðin sé því einnig of lítil.

Líf reið Eyþóri 

Líf kvað Eyþór fara með rangt mál.

„Veistu það eru svo margar rangfærslur hérna að ég verð eiginlega bara að stöðva Eyþór. Það er algjörlega ótækt að kjörinn fulltrúi skuli skapa svona orðstírs-áhættu fyrir Sorpu og fyrir það að koma hringrásarhagkerfinu og ná loftlagsmarkmiðum hérna í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu í gegn.

Hann er að tala um að Reykjavík sé eftirbátur annara sveitarfélaga í að flokka. það er rangt. Við erum í fararbroddi. Ekkert sveitarfélag umfram Reykjavík hefur boðið upp á jafn víðtæka flokkun, bæði við heimili og sveigjanleika við heimili af ýmsum úrgangsstraumum. Við erum með endurvinnslustöðvar, við erum með grenndarstöðvar, við erum með spillivagninn. við 2006 settum bláu tunnuna sem tekur pappa og pappír, grænu tunnuna sem er með plast.

Nei mér finnst ótækt að kjörinn fulltrúi, sem er að krefja stjórn Sorpu um að axla ábyrgð, skuli ekki sjálfur axla ábyrgð á því gríðarstóru umhverfisverkefni sem við stöndum frammi fyrir.“

Líf treystir Gaju

Líf sagði Gaju fullkomna til að takast á við það verkefni sem henni er ætlað.

„Reykjavíkurborg hefur alltaf sagt það að úrgangsstraumarnir sem við tökum þá helst við heimilin þurfi að vera hreinir og þar með þurfum við að flokka lífrænt þar. Hins vegar er Gaja það fullkomin að hún getur tekið hvort tveggja og við í sveitarfélögunum og í Sorpu erum að tala um hvernig við samræmum flokkun hér svo að straumarnir, úrgangsstraumarnir, séu sem hreinastir.“

Líf sagði gagnrýni, um að moltan sem Gaja muni framleiða verði ekki nægilega góð , ekki standast skoðun. Það séu ítarlegar kröfur gerðar fyrir starfsleyfi Gaja og þessi skilyrði muni tryggja gæði.

„Það eru mjög ítarlegar kröfur um starfsleyfi og á moltunni sem verður framleidd í Gaja og hvers vegna að gagnrýna hér afurð sem er ekki einu sinni komin. Heilbrigðiseftirlitið er með margra blaðsíða skilyrði fyrir því hvernig moltan eigi að vera og ef hún uppfyllir það ekki fengist ekki starfsleyfi.“

Eyþór fær orðið

Í þættinum gekk Eyþóri örðuglega að ná til sín orðinu, enda lá Líf mikið á hjarta.

„Ég held að hluti vandans sé einmitt þessi afstaða stjórnmálamanna eins og Lífar það er að segja að vilja ekki hlusta á gagnrýni og vilja alls ekki hlusta á varnaðarorð,“ náði Eyþór þó að segja. Hann vísað til þess að það væri mat sérfræðinga að borgin þurfi að standa sig betur í flokkun og í reynd séu heimili i borginni aðeins með tvær tunnur í boði. Líf hafi heldur ekki svarað því til hvernig Gaja geti komið í staðinn fyrir urðun í borginni þegar hún ræður ekki við það magn sem urðað er í dag.

„Á síðasta fundi sveitarfélaganna sem ég sótti þá var okkur lofað því að við fengjum nýjar áætlanir í maí en nú er kominn júní. Hvað klikkaði, hvar eru áætlanirnar?“ spurði Eyþór. 

Líf sagði það aðeins hafa tafist. En yrði komið fyrir miðjan júní. Síðar í þættinum nefndi hún að það yrði komið í lok júní, en skýrði svo mál sitt betur og sagði að borgarfulltrúum yrðu kynntar áætlanir um miðjan júní en þær lægu fyrir við lok júní.

Líf nefndi einnig að framúrkeyrsla Sorpu gæti leitt til breytinga eða endurskipulagningar á gjaldskrá. En markmið Sorpu væru sem áður ekki arðsemi heldur umhverfisleg og það verður áfram þannig.

Varðandi metangas – sem stóð til að Sorpa gæti selt til að mæta kostnaði við Gaja– hefur nú skapast umræða um að vinsældir metans sem eldsneytis séu ekki miklar. Líf telur þó sóknartækifæri þar.

„En það er eina svansvottaða eldsneytið sem við höfum og það er frábært að við getum framleitt það innanlands“

Hér má sjá þáttinn í heild sinni

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt