Alls bárust 358 fyrirspurnir frá þingmönnum til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins milli áranna 2015 og 2020. Ekki er vitað um fjölda vinnustunda, né kostnað starfsmanna ráðuneytisins við að afla svaranna við fyrirspurnunum. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.
Eins og kunnugt er sendi Brynjar fyrirspurn til allra ráðuneyta um kostnað þeirra við að svara fyrirspurnum þingmanna. Setti hann málið í samhengi við þann metfjölda fyrirspurna sem lá fyrir frá Birni Leví Gunnarssyni, þingmanni Pírata og sagði hann að fyrirspurnir Björns væru íþyngjandi fyrir starfsmenn ráðuneytanna sem væru að „kikna“ undir álaginu, auk þess sem kostnaðurinn væri margir tugir milljóna.
„Það er mjög sérstakt að menn haldi ekki utan um þetta, þetta eru dálítil vonbrigði,“ sagði Brynjar við Eyjuna í dag. Hann sagðist vonast til þess að vinnubrögðin væru önnur hjá hinum ráðuneytunum og minntist þess að utanríkisráðherra nefni gjarnan fjölda vinnustunda sem fari í að svara fyrirspurnum frá sínu ráðuneyti:
„Ég vona nú að ráðuneytin hafi nú einhverja hugmynd um tímafjöldann, að minnsta kosti betri hugmynd en atvinnuvegaráðuneytið. Það hlýtur að vera góð regla að halda utan um þetta.“
Brynjar segist alltaf hafa vitað að VG hefði spurst mikið fyrir í þessu ráðuneyti og því væri það engin spæling fyrir hann að Píratar séu ekki með flestar fyrirspurnirnar. Þá þurfi einnig að athuga að fjöldi fyrirspurna segi ekki endilega til um umfangið:
„Þetta er ekki alveg marktækt. Það geta leynst fjölmargar fyrirspurnir inni í einni fyrirspurn og því gefur þetta kannski ekki alveg rétta mynd af umfanginu. En vonandi verður þetta til þess að varpa ljósi á hversu íþyngjandi þetta getur verið fyrir starfsmenn að vinna í öllum þessum fjölda,“
sagði Brynjar.
Hann óttaðist ekki að þingmenn yrði feimnari við slíkar fyrirspurnir í framtíðinni í nafni opinbers aðhalds, þegar kostnaðurinn við þær kæmi í ljós:
„Nei ég hef ekki áhyggjur af því. Fyrirspurnir eru afar mikilvægar í sjálfu sér og eðlilegar þegar þingmenn eru að vinna í málum þeim tengdum. En Björn Leví er ekkert að vinna mál eða frumvarp úr öllum þessum hundruðum fyrirspurna sem hann er með, það liggur alveg fyrir.“
Samkvæmt svari ráðuneytisins er ekki hægt að áætla tímafjöldann né kostnaðinn við vinnuna sem fer í að svara fyrirspurnum þingmannanna:
„Ekki er haldið sérstaklega utan um tímafjölda starfsmanna í tengslum við svör við þessum fyrirspurnum og því ekki hægt að tilgreina nákvæman kostnað vegna þessa enda er litið svo á að þessi verkefni séu hluti af þeim verkefnum sem ráðuneytinu beri að sinna.“
Tekið er fram að fjöldi fyrirspurna hafi þó farið vaxandi og sé hlutur Pírata í heildina 54 fyrirspurnir, eða 18%. Hins vegar eru mun fleiri fyrirspurnir frá þingmönnum VG á sama tíma, eða alls 91 fyrirspurn, alls 25%.
Á þessu ári eru fyrirspurnir Pírata þó 15 gegn sjö fyrirspurnum VG.