Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir að minningarafhöfn um látna sjómenn sem vanalega er haldin á sjómannadaginn hafi verið frestað að þessu sinni vegna kórónuveirufaraldursins.
Jón bendir á að samstöðumótmæli með #blacklivesmatter hreyfingunni hafi verið leyfð á Austurvelli í vikunni en þar er talið að yfir 3.000 manns hafi komið saman.
Hins vegar hafi minningarathöfnin um látna sjómenn ávallt verið fámenn, yfirleitt um 70-80 manns. Jón skrifar á Facebook-síðu sína:
„Ég hef á undanförnum árum verið við þessa látlausu og fallegu athöfn. Ég skil reyndar ekki hvers vegna henni var frestað nú því þarna hafa verið saman komin nokkrir tugir manna, kannski 70-80 manns og áhafnir varðskipa okkar hafa staðið heiðursvörð meðin lesin eru minningarorð.
Á sama tíma var ekkert mál að leyfa mótmælastöðu við Austurvöll þar sem, samkvæmt lögreglu, voru saman komin hátt í 3,000 manns. Nú hef ég ekkert við mótmælastöðuna að athuga og örugglega fullt tilefni til að taka þátt í vandlætingu gagnvart því ofbeldi sem þar var mótmælt.
En við megum ekki gleyma uppruna okkar, það engum hollt.“