Ungverska lággjaldaflugfélagið Wizz Air íhugar að opna bækistöð hér á landi þar sem 4-5 flugvélar yrðu staðsettar. Mannlíf greinir frá. Þá er einnig greint frá því að félagið vonist til að hefja flug frá Íslandi strax á morgun og eru áfangastaðirnir Búdapest, Vínarborg og Lundúnir, en þær upplýsingar hafa þegar verið birtar á vef Keflavíkurflugvallar.
Andreas Rado, samskiptastjóri Wizz Air vill ekki staðfesta við Mannlíf að félagið hyggist opna bækistöð á Íslandi, en Mannlíf segir heimildir sínar áreiðanlegar. Voru slíkar viðræður þegar hafnar skömmu eftir gjaldþrot WOW air í fyrra, en forsvarsmenn Wizz ku hafa hætt við þar sem ekki náðist nægilega hagstæðir samningar við Isavia, samkvæmt Mannlífi.
Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir við RÚV að alls sex flugfélög hyggist fljúga til Keflavíkur frá 15. júní. Flug Wizz Air sé þegar hafið og þá séu Atlantic Airways, Czech Airlines, Icelandair, SAS, og Transavia einnig búin að boða komu sína, en samkvæmt Túrista hyggst Lufthansa hefja flug héðan í byrjun næsta mánaðar.