„Það virðist nokkuð mótsagnakennt að gera þetta svona,“ segir Þórólfur Matthíasson, hagfræðingur við Háskóla Íslands um þá staðreynd að ríkisstjórnin ætli að verja alls 34 milljörðum til að viðhalda ráðningarsambandi fyrirtækja við starfsfólk sitt með hlutabótaleiðinni, en 27 milljörðum til að eyða ráðningarsambandinu með uppsagnaleiðinni, sem gagnrýnd hefur verið fyrir að hvetja fyrirtæki til að segja upp starfsfólki sínu.
Eyjan fjallar um uppsagnaleiðina í helgarblaði DV sem kom út í dag. Þar er meðal annars rætt við Þórólf, sem hefði kosið að hafa styrkina í formi lána með endurgreiðslukröfu. Endurgreiðslan væri þá í takt við innkomu fyrirtækisins síðar meir, ekki ósvipað og hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) notast við, þar sem námslán eru greidd eftir tekjum lánþega.
„Mér fannst miður að menn skyldu ekki horfa á slík sjónarmið hér á landi,“
segir Þórólfur sem sjálfur var stjórnsýslunni til ráðgjafar í málinu. Hann nefnir að það hafi sýnt sig í misnotkuninni á hlutabótaleiðinni að allt sé reynt til þess að svindla á kerfinu, líkt og skýrsla Ríkisendurskoðunar leiddi í ljós:
„Manni sýnist að það hafi verið auðvelt stundum að fá endurskoðendur til þess að búa til það sem þurfti að búa til.“
Nánar má lesa um málið í helgarblaði DV þar sem einnig er rætt við Skúla Eggert Þórólfsson, ríkisskattstjóra og Unni Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar.