Flugfélagið Ernir hefur verið tilkynnt af Reykjavíkurborg að rífa þurfi viðhaldsstöð flugfélagsins á Reykjavíkurflugvelli, vegna nýs skipulags þar sem brúin yfir Fossvoginn á að taka land. Þar sem enginn lóðaleigusamningur liggur fyrir, fær Ernir engar bætur og er rekstur félagsins í uppnámi, samkvæmt Herði Guðmundssyni forstjóra í fréttum Stöðvar 2.
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík tjáði sig um málið á Facebook og minnti á að borgin hefði nýlega skrifað undir samkomulag við ríkið þess efnis að ekki yrði hróflað við flugvellinum á meðan aðrir valkostir væru metnir.
Samkomulagið sem Eyþór vísar í var undirritað í fyrra og snerist um að tryggja rekstur Reykjavíkurflugvallar, meðan nýr staður væri fundinn fyrir flugvöllinn í Hvassahrauni:
„Í samkomulaginu eru aðilar sammála um að tryggja rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli á meðan undirbúningi og gerð nýs flugvallar stendur, þar með talið eðlilegt viðhald og endurnýjun mannvirkja í samræmi við ákvæði gildandi samgönguáætlunar Alþingis. Í samkomulaginu er miðað við að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til að nýr flugvöllur er tilbúinn til notkunar. Þá lýsir Reykjavíkurborg jafnframt yfir vilja sínum til þess að tryggja nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi.“
Nauðsynlegar breytingar virðast ekki hafa verið gerðar á aðalskipulagi, því samkvæmt forstjóra Ernis myndi öll starfsemi félagsins, sem meðal annars snýr að sjúkraflugi, lamast ef viðhaldsstöðin yrði rifin.
Eyþór segir langt seilst hjá meirihlutanum:
„Að hóta svo eignaupptöku án þess að ætla að bæta tjónið. Það er stjórnarskrárbrot ef rétt reynist.“