Götum miðborgarinnar hefur mörgum verið breytt í göngugötur, við mismikla ánægju verslunareigenda. Ekki hafa allir áttað sig á breytingunum, og brunað á bíl sínum niður göngugötur þó slíkt sé nú bannað. Er það líklega bæði út af gömlum vana, en einnig vegna þess að umferðarskiltin eru ekki nægilega áberandi.
Það er að minnsta kosti álit lögreglunnar, en Árni Friðleifsson, aðalvarstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun að það væru hnökrar á merkingum, þó svo borgin hafi gert allt lagalega rétt í sinni aðkomu:
„Ég er búinn að fara í tvígang niður á Laugaveg og skoða merkingarnar. Þær eru eftir formreglu reglugerðar um umferðarmerki, en það eru hnökrar. Þetta er merki sem eru hátt uppi, það mætti lækka þau, og við erum búin að koma okkar ábendingum á framfæri við borgina.“
Þá nefndi Árni að lögreglan hefði fulla heimild til að sekta, þó svo annað hafi komið fram í Twitter færslu lögreglunnar á dögunum, en ekki væri hægt að vakta öll brot:
„Það er engin gata sem getur fengið 24 tíma eftirlit hjá lögreglu. Það er ekki inni í myndinni. Ef svo væri þá værum við að búa í lögregluríki og það vill enginn.“