Interpol hefur verið kallað til aðstoðar við rannsókn Samherjamálsins af namibískum yfirvöldum. Rannsóknin nær til níu landa, þar á meðal Íslands og Noregs. Þetta kemur fram á vefmiðlinum Informante og RÚV greinir frá.
Sexmenningarnir sem ákærðir voru í málinu í Namibíu verða í gæsluvarðhaldi í þrjá mánuði til viðbótar, en málið verður tekið upp að nýju í lok ágúst.
Greiðslurnar sem sexmenningarnir í Namibíu hafa verið ákærðir fyrir að þiggja, meðal annars frá Samherja, eru hærri en hingað til hefur verið talið. Þetta kom fram í máli Karls Cloete, rannsóknarlögreglumanns ACC spillingarlögreglunnar í Namibíu, er hann gaf skýrslu fyrir dómi í máli Ricardo Gustavo, eins sexmenninganna, í lok maí.
Við sama tækifæri sagði Cloete að yfirvöld á Íslandi væru ósamvinnuþýð í málinu.