Íslenska flugfélagið Atlanta hyggst ekki stíga inn á íslenska flugmarkaðinn fari svo að Icelandair falli. Þetta segir Baldvin Már Hermannsson, forstjóri félagsins við Eyjuna í helgarblaði DV.
„Í rauninni ekki, nei. Auðvitað fylgjumst við með stöðunni, en við erum í allt öðrum rekstri en þeir. Við höfum verið að einbeita okkur að blautleiguverkefnum erlendis og vélarnar okkar henta ekki þessu leiðakerfi sem Ísland þyrfti á að halda og viðskiptamódelið er einfaldlega gjörólíkt. Það hefur áður komið til tals hjá okkur að nýta Ísland sem stopp á milli Evrópu og Bandaríkjanna, en það hefur aldrei neitt orðið úr því. Ég sé helst fyrir mér að það væri fýsilegasti kosturinn, en eins og staðan er nú sé ég ekki að þörfin kalli á slíkar breytingar. Því sjáum við ekki tækifæri í raunum Icelandair.“
Lítið fer fyrir starfsemi Air Atlanta hér á landi, þar sem félagið flýgur hvorki með farþega né frakt til og frá landinu. Áhrif kórónuveirunnar ná þó víða og hefur félagið orðið fyrir gríðarlegu tekjufalli undanfarin misseri, líkt og önnur flugfélög.
Lestu nánar um stöðu Atlanta í helgarblaði DV.