Björn Jón Bragason skrifar í nýjasta pistli sínum í helgarblaði DV um deilur milli stjórnarflokkanna um framkvæmdir í Helguvíkurhöfn. Hann segir margt líkt með því máli og ráðagerðum um alþjóðlegan varaflugvöll nærri Húsavík fyrir þremur áratugum:
„Í tíð vinstristjórnar Steingríms Hermannssonar á árunum 1988 og 1989 risu deilur milli stjórnarflokkanna um byggingu alþjóðlegs varaflugvallar í Aðaldal, nærri Húsavík. Til stóð að völlurinn yrði fjármagnaður af mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins og áætlað var að framkvæmdir myndu kosta ellefu milljarða króna. Það jafngildir nálega 63 milljörðum á núvirði ef tekið er mið af byggingarvísitölu.
Flugvöllurinn varð að þrætuepli stjórnarflokkanna vegna ólíkrar afstöðu þeirra til veru Íslands í NATO og dvalar varnarliðsins hér á landi. Þáverandi utanríkisráðherra og formaður Alþýðuflokksins, Jón Baldvin Hannibalsson, aflaði sér skriflegrar yfirlýsingar Manfreds Wörner, aðalframkvæmdastjóra NATO, um að ekki yrði litið á flugvöllinn sem hernaðarmannvirki nema á stríðstímum. Sama afstaða kom fram í viðræðum Jóns Baldvins og James Baker, utanríkisráðherra Bandaríkjanna í febrúar 1989.
Steingrímur J. Sigfússon samgönguráðherra sagði aftur á móti afdráttarlaust að um hernaðarmannvirki væri að ræða og að ekki yrði úr framkvæmdum. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Alþýðubandalagsins, vísaði í fréttum á þeim tíma til ákvæða í stjórnarsáttmálanum þess efnis að „engin meiriháttar hernaðarmannvirki“ yrðu reist hér á landi í tíð stjórnarinnar.
Völlurinn hefði þó umfram allt nýst sem borgaralegt mannvirki og orðið mikilvægur varaflugvöllur og þar með aukið notagildi Keflavíkurflugvallar, en rannsóknir höfðu leitt í ljós að hvergi á landinu væru veðurskilyrði jafnólík Keflavíkurflugvelli og nærri Húsavík. Sömuleiðis hefðu skapast möguleikar á fiskútflutningi með flugi frá Norðurlandi. Allt kom þó fyrir ekki og þegar ný ríkisstjórn tók við völdum 1991 höfðu orðið slík veðrabrigði í alþjóðastjórnmálum að stórframkvæmdir sem þessar voru ekki lengur til umræðu.“
Björn Jón rekur í grein sinni hvernig sjá megi ýmis líkindi með þessu máli og hugmyndum um stórskipahöfn í Helguvík nú. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tali enga tæpitungu þegar kemur að þeim málum og segi varnarsamninginn við Bandaríkin annað og meira en viljayfirlýsingu. Hann sé beinlínis skuldbinding af Íslands hálfu um tiltekin mannvirki sem gagnist við varnir landsins. Áætlað er að framkvæmdir í Helguvík muni kosta 12–18 milljarða króna og yrðu að langmestu leyti greiddar af mannvirkjasjóði NATO. Grípum niður í pistilinn:
„Heimildir herma að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafi lagst öndverð gegn málinu þegar það kom til tals á fundi ráðherra. Katrín sagði í Morgunblaðinu 15. maí að sér fyndist „óviðeigandi“ að fyrirhuguðum framkvæmdum væri „blandað inn í efnahagsaðgerðir stjórnvalda“ þar sem þetta sneri að hennar mati að „hernaðaruppbyggingu“.
Einn heimildarmaður í Sjálfstæðisflokki sagði að þetta mál yrði ekkert skilið frá umræðunni um efnahagsmálin eins og staðan væri í þjóðfélaginu – sér í lagi í ljósi bágs ástands á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysi mælist 28%.
Katrín sagði enn fremur í viðtalinu við Morgunblaðið: „Við erum fullvalda ríki og þurfum ekki á hjálp þaðan að halda í efnahagsmálum.“ Þegar hún segir „þaðan“ á hún væntanlega við um Atlantshafsbandalagið. Hér er þó ekki um ölmusu að ræða þar sem Íslendingar leggja sjálfir fé til mannvirkjasjóðsins og eiga rétt á greiðslum þaðan.
Nú þegar eru í gangi framkvæmdir á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli sem gert er ráð fyrir að muni kosta 13–14 milljarða króna. Þetta eru mestu framkvæmdir við varnarmannvirki hér síðan 2002. Um er að ræða viðhald flugbrauta, byggingu flugskýla, endurnýjun loftvarnakerfisins, uppfærslur á ratsjárstöðvum og ýmislegt fleira. Guðlaugur Þór hefur ekki dregið neina fjöður yfir það að framkvæmdirnar skapi hundruð starfa.“