Í skýrslu Ríkisendurskoðanda um hlutabótaleið stjórnvalda, kemur fram gagnrýni á Vinnumálastofnun fyrir að hafa dregið það fram á haust að hefja eftirlit með fyrirtækjunum sem nýttu sér úrræðið.
Skýrslan var unnin fyrir Alþingi og kemur út í dag. Greint var frá þessu í hádegisfréttum RÚV.
Um frumkvæðisathugun Ríkisendurskoðanda er að ræða og fer hún í kynningu stjórnskipunar – og eftirlitsnefnd Alþingis áður en hún verður kynnt opinberlega, að ósk forseta Alþingis. Mun fjárlaganefnd einnig fjalla um hana, samkvæmt frétt RÚV.
haft er eftir Skúla Eggerti Þórðarsyni ríkisendurskoðanda, að ástæða hafi þótt til að skoða hlutabótaleiðina betur, þar sem hún hafi kostað mun meira en upphaflega hafi verið lagt upp með þegar lögin voru samþykkt, en alls 37 þúsund manns hafa nýtt sér hlutabótaleiðina, en aðeins var gert ráð fyrir að 10-20 þúsund manns myndu nota leiðina.
Í skýrslunni er einnig greint frá þeim upphæðum sem fyrirtækin hafa fengið vegna leiðarinnar og þar kemur fram að starfsfólk Icelandair hafi fengið tæpan milljarð.