Markaður Fréttablaðsins skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að ef fylgni útlendinga, sem fara um Keflavíkurflugvöll, og fjöldi starfandi í ferðaþjónustu frá janúar 2009 til janúar 2020 sé skoðuð sjáist að straumur ferðamanna skýri um 99,8% af breytingunni í fjölda starfa í ferðaþjónustu.
„Ferðaþjónustan er mannaflsfrek og það eru takmörkuð tækifæri til að ná fram stærðarhagkvæmni. Það leiðir til þess að nokkuð línuleg fylgni er milli fjölda ferðamanna og fjölda starfa í greininni. Fyrirtæki þurfa svo og svo marga starfsmenn til að taka á móti ákveðnum fjölda ferðamanna.“
Hefur Markaðurinn eftir Jóni Bjarka Bentssyni, aðalhagfræðingi Íslandsbanka.
Samkvæmt nýlegir þjóðhagsspá Íslandsbanka er gert ráð fyrir 9,2% samdrætti í landsframleiðslu á árinu. Á móti spáir bankinn, 4,7% hagvexti á næsta ári og 4,5% hagvexti 2022. Ein af lykilbreytunum í spánni er fjöldi ferðamanna sem Íslandsbanki telur að verði um 750.000 á þessu ári, samanborið við tæplega 2 milljónir á síðasta ári, og að þeir verði rúmlega 1 milljón á næsta ári.
Út frá fylgninni, sem hefur verið á milli fjölda starfandi í ferðaþjónustu og fjölda ferðamanna, ásamt spá Íslandsbanka um fjölda ferðamanna út árið 2022 er hægt að spá fyrir um atvinnuþróun í ferðaþjónustu. Þá sést að störfum í ferðaþjónustu mun fækka úr 27.000 í janúar á þessu ári niður í rúmlega 15.000 í mars 2021.