Guðni Ágústsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra skrifaði pistil sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Þar ræðir hann fæðuöryggi og þá ógn sem hann telur að pensilín geti haft í búfjárræktun. Guðni telur það heimsku að fela öðrum matvælaöryggið og vitnar í franska tímaritið Le Monde.
„Covid-19 faraldurinn sýnir okkur svo ekki verður um villst að sumar vörur og þjónusta geta ekki lengur fallið undir lögmál markaðarins. Það er heimska að fela öðrum að sjá um matvælaöryggi og önnur öryggismál og leyfa öðrum umráð yfir lífsmáta okkar og lífskjörum. Við verðum að ná stjórn á þessu nú þegar.“ Þannig skrifaði ritstjóri franska tímaritsins Le Monde, fyrir stuttu.“
Guðni telur að lág dánartíðni vegna COVID-19 á Íslandi gæti hafa komið til vegna þess hve lítið sýklalíf séu notuð á Íslandi.
„Steinn Jónsson, prófessor í lungnasjúkdómum við Landsspítalann og læknadeild Háskóla Íslands, skrifar góða grein á dögunum þar sem hann ræðir um viðbrögð við Covid-19 faraldrinum hér á landi og alveg sérstaklega um aðdáunarverða frammistöðu íslenska heilbrigðiskerfisins og yfirvegaðar aðgerðir og forystu þríeykisins góða. Greinina nefnir hann „Heimsmet í lýðheilsu og gjörgæslu“. Eitt af því sem Steinn kemur inn á í greininni er lág dánartíðni í hlutfalli við fjölda smitaðra, en hlutfall sé 1/8 hér á landi í samanburði við Bandaríkin og svipað eigi við ef borið sé saman við mörg Evrópulönd sem farið hafa illa út úr faraldrinum. Mismunandi dánartíðni eftir löndum segir Steinn að sé ráðgáta sem hljóti að verulegu leyti að snúast um gæði lýðheilsuaðgerða og heilbrigðisþjónustu á hverjum stað, en síðan segir hann: „Dauði vegna veirulungnabólgu stendur reyndar oft í sambandi við bakteríusýkingar sem koma í kjölfar veirusýkingarinnar og þar kann að vera lykilatriði að hér á landi er tiltölulega lítið sýklalyfjaónæmi baktería fyrir hendi vegna minni notkunar sýklalyfja (í landbúnaði hér) heldur en til dæmis á Ítalíu eða í Bandaríkjunum.“
Guðni óttast að pensilínnotkun í landbúnaði gæti valdið meiri dauða en bæði krabbamein og COVID-19, en hann telur það mikið ábyrgðarleysi að þingmenn opni landið fyrir innfluttu kjöti.
„(Enn og aftur erum við minnt á mikilvægi þess að standa vörð um þá stöðu sem við höfum búið við hér á landi varðandi heilbrigði búfjárstofna og heilnæm matvæli frá bændum.) Pensilínnotkun sú minnsta og engin í fóður, en óhófið í notkun á pensilíni í búfé í hinum vestræna heimi boðar miklu harðari glímu við dauðann en krabbameinið og Covid-19. Og leiða má getum að því að glíman við Covid sé verri í löndum sem komast upp með glæpsamlega meðferð á pensilíni í dýr og afleiðingar birtast í fólki sem hefur pensilínóþol. Í umræðunni um hættuna sem stafar af óvarlegum innflutningi á hráu kjöti til Íslands hafa því miður ráðamenn metið þau sjónarmið léttvæg og opnað landið í hálfa gátt.“
Hann minnist orða prófessorsins Lance Price sem talaði um sérstöðu Íslands er vörðuðu litla notkun á sýklalyfjum í búfénaði. Guðni telur að þessa sérstöðu verði að verja og mikilvægt sé að stjórnmálamenn og vísindamenn taki þátt í því.
„Stephen M. Walt, ritstjóri Foreign Policy skrifar: „Raunsæismenn vita það núna að heimsfaraldurinn er enn ein ástæða til að vara sig á hnattvæðingunni. Hnattvæðing eykur hættur á ýmiss konar kreppum í samskiptum þjóða, en skapar líka alvarleg innanríkisvandamál, svo sem þegar störf eru flutt milli landa.“ Hér hefur verið gengist við kröfu ESB um að flytja megi inn hrátt kjöt til Íslands og farið gegn hollráðum færustu manna bæði prófessoranna Margrétar Guðnadóttur og Karls G Kristinssonar. Aldrei mun ég gleyma varnaðarorðum dr. Lance Price, prófessors við George Wasingtonháskóla og Milken-lýðheilsustofnunarinnar í Washington, en Sigurður Ingi Jóhannsson og Framsóknarflokkurinn fengu hann til að koma hingað. Hann var á fjölmennum fundi á Hótel Sögu. Magnaðri varnaðarorð hef ég ekki heyrt gegn því að f lytja hingað ófrosið kjöt. Erindið fjallaði um lýðheilsu og algjöra sérstöðu Íslands. Hann lýsti stöðu Íslands til fyrirmyndar í vörnum gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería sem væri stærsta ógn við lýðheilsu mannkynsins. Hann sagði þegar hann var spurður um hvað hann ráðlegði ríkisstjórn og Alþingi að gera, þá svaraði hann á þessa leið: Nei, nei, aldrei að rjúfa þennan öryggismúr. Ríkisstjórnin bar ekki gæfu til að standa gegn þessari ógn. „Varðstaða gegn óvarlegum innflutningi á hráu kjöti snýst um líf og heilsu íslensku þjóðarinnar.“ Þarna liggur stærsta heilsufarsógnin á himni framtíðarinnar. Verksmiðjubúskapurinn í vestrænum heimi snýst víða um drafníð, og glæpsamlega lyfjanotkun, gegn þessu fári verða vísindamenn, læknar og stjórnmálamenn að rísa.
Var það ekki Gandhi sem minnti mannkynið á „að jörðin fullnægir þörfum allra, en ekki græðgi allra“? Græðgin hefur tröllriðið heiminum. Mál er að linni.“