Grein Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra, sem birtist á Kjarnanum í gær hefur fengið góðar undirtektir á samfélagsmiðlum, ekki síst hjá þeim sem hallast til vinstri í stjórnmálum.
Grein Jóns er gagnrýni á fyrirkomulag fiskveiðikerfisins og segir hann að arðinum á þjóðareigninni hafi verið „stolið um hábjartan dag í pólitísku skjóli stjórnvalda,“ sem að nafninu til eigi þó að „gæta þjóðarauðsins“ og þar með almannahagsmuna. Vísar hann til þess þegar eignarhluti Samherja færðist til barna eigenda fyrirtækisins á dögunum:
„Þegar ég spurði þau tíðindi, að arðurinn af þjóðarauðlind Íslendinga væri orðinn að skattfrjálsu erfðafé og eyðslueyri afkomenda tveggja ólígarka á Akureyri, var ég í miðjum klíðum að lesa bók, sem í ljósi þessa þjóðarhneykslis, gæti reynst Íslendingum þörf lexía. Bókin heitir: „Exporting the Alaska Model“, eftir bandaríska prófessora, Widerquist og Howard,“
segir Jón og leggur til að Alaskamódelið verði tekið upp hér á landi, þar sem hver ríkisborgari njóti góðs af þjóðarauðlindinni:
„Enn sem komið er á Alaska módelið engan sinn líka. Það samanstendur af þremur þáttum: (1) Tekna er aflað með auðlindagjaldi (2) Auðlindagjaldið rennur í þjóðarsjóð, sem er ávaxtaður með fjárfestingum (3) Hluta af tekjum sjóðsins er síðan varið til greiðslu í peningum til allra íbúa fylkisins.“
Jón Baldvin segir það síðustu forvöð að grípa í taumana varðandi „ósvinnu“ þeirri sem snýr að sjávarútveginum hér á landi. Segir hann vinstri menn á þingi ekki þora að standa uppi í hárinu á kvótagreifum sem komi úr sama kjördæmi:
„Verði það ekki gert, er það staðfesting þess, að hinn ofurríki forréttindaaðall hefur nú þegar náð slíkum heljartökum á íslensku þjóðfélagi, að ekki verði aftur snúið. Ólígarkarnir (rússneska yfir auðlindaþjófa) ráða þegar lögum og lofum yfir heilu kjördæmunum, þannig að stjórnmálamenn þora ekki lengur að rísa gegn ofurvaldi þeirra. Er það tilviljun að stofnandi og burðarás Vinstri Grænna og núverandi formaður Samfylkingar skila báðir auðu í þessu stærsta máli þjóðarinnar – báðir frá Norðurlandskjördæmi eystra? Það er vitað, að ólígarkarnir gera þegar út bæði Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkinn. Nú verður einfaldlega að láta á það reyna, hvort stjórnarandstaðan er á þeirra valdi líka,“
segir Jón Baldvin og á þarna við Steingrím J. Sigfússon, forseta Alþingis og Loga Einarsson, formann Samfylkingarinnar.
Hann segir engin vettlingatök duga lengur og leggur til eftirfarandi:
Þá vill hann einnig að stjórnarandstaðan ráði færustu sérfræðinga til að ráðleggja sér hvernig megi endurheimta megnið af auðlindarentunni, upp á hundruð milljarða króna, með lögformlegum hætti, á þeim forsendum að eignarréttur þjóðarinnar á auðlindinni hafi ekki verið virtur hingað til.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, deilir grein Jóns og birtir orð hans um að næstu kosningar eigi einnig að verða þjóðaratkvæðagreiðsla um málið:
„Næstu kosningar eiga að vera þjóðaratkvæðagreiðsla um þessa aðgerðaáætlun. Ef Alþingi Íslendinga tekur ekki í taumana í þessu máli og kemur lögum yfir þjóðararðsþjófnaðinn, staðfestir það, að völdin í íslensku þjóðfélagi hafa færst frá löggjafarvaldinu til forréttindaaðals, sem ræður orðið lögum og lofum í landinu. Þá er bara eitt úrræði eftir: Að þjóðin endurheimti þau völd, sem hún hefur verið rænd, reki heim þetta dáðlausa þing og velji sér nýja menn til forystu – menn sem þora og standa við orð sín um vernd almannahagsmuna.“
Þá deilir Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor einnig grein Jóns á samskiptamiðlum og Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambandsins einnig.