fbpx
Miðvikudagur 24.júlí 2024
Eyjan

Á þingpöllum: Gífuryrði gagnast engum

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 24. maí 2020 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björn Jón Bragason, sagn- og lögfræðingur, skrifar pistil í helgarblað DV sem nefnist Á þingpöllum. Í pistli vikunnar gagnrýnir hann gífuryrði verkalýðshreyfingarinnar á krísutímum og minnir á mikilvægi þess að atvinnulífið, lífeyrissjóðirnir og  verkalýðshreyfingin vinni saman að hagsmunum þjóðarinnar. 

 

Þessi þáttur blaðsins er helgaður pólitík og pólitíkin er víðar en í þingsölum. Hún birtist líka í verkalýðshreyfingunni sem er sterkur valdaaðili og óhjákvæmilega þarf að taka tillit til. Stéttarfélögum er ætlað mikilsvert hlutverk að lögum, sér í lagi sem viðsemjandi um kjör launafólks.

Umfang verkalýðshreyfingarinnar er mikið og til marks um það má nefna að samanlagt bókfært eigið fé tveggja stærstu stéttarfélaga landsins, VR og Eflingar, nam rúmum 25 milljörðum króna í árslok 2018.

Friður og sátt í þjóðfélaginu

Á eftirstríðsárunum runnu upp nýir tímar í samfélögum Vestur-Evrópu. Borgaralegu öflin færðust nær þeim róttæku. Hægrimenn sættust á víðtækan, opinberan rekstur og stóraukin útgjöld til félagsmála, á sama tíma og vinstrimenn höfnuðu frekari þjóðnýtingu og vildu treysta að nokkru marki á frjálst framtak. Viðreisnarstjórnin, samstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem sat að völdum 1959–1971, var tímanna tákn. Á þessu tímaskeiði sáttar í vestrænum samfélögum hefur orðið lífskjarabylting, líka meðal aldraðra. Með samstilltu átaki verkalýðshreyfingar og vinnuveitenda var hér á landi komið á fót einu öflugasta lífeyriskerfi heims. Þar hefur forystufólk stéttarfélaga og atvinnurekendur bundist traustum böndum, við ávöxtun fjármuna sjóðfélaga, og gagnkvæmur skilningur vaxið á því að öflugu félagslegu kerfi verður ekki viðhaldið, nema með þróttmiklu atvinnulífi.

Beinir hagsmunir alls almennings

Með íslenska lífeyrissjóðakerfinu má segja að hér á landi hafi myndast það sem sem fyrir mörgum áratugum voru kölluð „alþýðuvöld í atvinnulífinu“, en fyrir forgöngu Guðmundar H. Garðarssonar og fleiri forystumanna Lífeyrissjóðs verslunarmanna, var lífeyrissjóðum gert kleift að fjárfesta í hlutabréfum. Það var óumdeilanlega mikið heillaskref og þegar er litið er til áranna 1980 til 2015 kemur í ljós að raunávöxtun sjóðsins í íslenskum hlutabréfum var að meðaltali 10,7 prósent, sem er mun hærra en af öðrum fjárfestingum. Hér meðfylgjandi er tafla sem sýnir eignarhluti Lífeyrissjóðs verslunarmanna og Gildis í nokkrum félögum í Kauphöllinni. Verkalýðshreyfingin skipar helming stjórnarmanna í báðum þessum sjóðum og sömu sögu er að segja til dæmis um Lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna, Birtu, Brú og Stapa, sem líka eru umsvifamiklir á hlutabréfamarkaði.

Stóryrði gagnast engum

Á umliðnum dögum hefur Icelandair, eitt mikilvægasta fyrirtæki landsins, róið lífróður og við öllum blasir að draga þarf stórlega úr kostnaði, svo hægt verði að bjarga félaginu. Bogi Nils Bogason, forstjóri þess, hefur ekki dregið neina fjöður yfir það að launakostnaður flugstétta vegi þar þyngst og í innanhússskeyti til starfsfólks – sem Ríkisútvarpið sagði frá – kom fram að á sama tíma og unnið væri nótt og dag við að bjarga fyrirtækinu, fyndi hann að helsta fyrirstaðan værum „við sjálf, starfsfólkið sem starfar hjá fyrirtækinu“.

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambandsins, sagði þessar fullyrðingar „einstaklega ósvífnar“. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, lét einnig í sér heyra og kvaðst vera orðinn „þreyttur á því að alltaf skuli starfsfólkið vera aðalvandamálið þegar illa gengur, þegar annað er augljóst“. Digurbarkalegar yfirlýsingar koma engum að gagni þegar svo miklir þjóðhagslegir hagsmunir eru í húfi. Öllum er ljóst að draga þarf verulega úr kostnaði eigi Icelandair að lifa af.

Lífeyrissjóðirnir komu til bjargar

Hið opinbera getur ekki leitt okkur úr þeirri djúpu kreppu sem þjóðfélagið stendur frammi fyrir. Ríkisvaldið ráðstafar eingöngu þeim fjármunum sem atvinnulífið hefur látið því í té með sköttum. Eina bjargræðið er arðvænleg fyrirtæki. Icelandair hefur verið þar í lykilhlutverki og rétt að rifja upp að það voru lífeyrissjóðir landsmanna sem endurreistu það í kjölfar bankahrunsins. Sjóðirnir létu þá til sín taka með myndarlegum hætti og stofnuðu Framtakssjóð Íslands sem hafði grundvallarþýðingu við uppbyggingu atvinnulífsins í kjölfar bankahrunsins. Icelandair hafði lent í eignarhaldi banka, sem ekki gat gengið. Framtakssjóðurinn hafði afl til að koma félaginu á rétta braut, studdur af Lífeyrissjóði verslunarmanna og Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Framtakssjóðurinn hagnaðist um alls 47,7 milljarða króna, en það var hvorki meira né minna en 110 prósenta ávöxtun á stuttum líftíma sjóðsins. Í núverandi ástandi í þjóðfélaginu vantar tilfinnanlega öflugan fjárfestingasjóð af þessu tagi.

Að verja störfin

Þjóðfélagið er ein órofa heild og hagsmunir rækilega samtvinnaðir, sér í lagi í ljósi beinna ítaka sjóða launafólks í stærstu fyrirtækjum landsins, og þegar eitt mikilvægasta fyrirtæki landsins rær lífróður, skiptir máli að talsmenn launafólks leiti allra leiða til verja tilverugrundvöll þess. Alvöruforystufólk verður að geta hafið sig yfir sífellt karp á götuhornum um allt og ekki neitt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Bandarísk stjórnmál: Biden vill koma böndum á Hæstarétt Bandaríkjanna

Bandarísk stjórnmál: Biden vill koma böndum á Hæstarétt Bandaríkjanna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Hildur hnyklar brýnnar í áframhaldandi ritdeilu – „Ég trúi varla að ég þurfi að rita enn eina grein­ina“

Hildur hnyklar brýnnar í áframhaldandi ritdeilu – „Ég trúi varla að ég þurfi að rita enn eina grein­ina“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Fjölmargar þjóðir með meiri – miklu meiri – kaupmátt en við – það er von að Bjarni Ben sé ánægður og stoltur

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Fjölmargar þjóðir með meiri – miklu meiri – kaupmátt en við – það er von að Bjarni Ben sé ánægður og stoltur