Verð á sumarbústöðum hefur ekki hækkað að ráði síðastliðin ár, en nú gæti orðið breyting þar á þegar eftirspurnin eykst sökum takmarkana á utanlandsferðum. Eftirspurn eftir, og sala á sumarbústöðum hefur aukist töluvert á síðustu vikum umfram fyrri ár, sé miðað við sama árstíma. Þetta er álit fasteignasala og er ástæðan rakin til áhrifa kórónaveirunnar.
Sigurður Gunnlaugsson er framkvæmdastjóri og eigandi Torgs fasteignasölu:
„Við fáum yfirleitt sumarhúsafyrirspurnir strax í febrúar, og síðan eykst áhuginn eftir því sem nær dregur sumri. Í ár var annað uppi á teningnum, þá dró nokkuð úr fyrirspurnum í mars vegna kórónaveirunnar, samhliða fækkun þinglýstra kaupsamninga í aprílmánuði á almenna íbúðamarkaðnum. En síðan hefur þetta tekið kipp. Hvort þessi mikli áhugi skili sér í kaupsamningum er ekki hægt að fullyrða um á þessu stigi, en áhuginn er vissulega til staðar.“
Þorsteinn Magnússon er löggiltur fasteignasali hjá Árborgum fasteignasölu, sem hefur meðal annars milligöngu um sölu byggingarlóða undir sumarbústaði fyrir Landsbankann á Suðurlandi og Vesturlandi, hvar finna má vinsælustu sumarhúsasvæði landsins. Hann segir áhugann fyrir lóðakaupum einnig hafa aukist hjá sér:
„Þetta byrjaði strax í mars og má færa rök fyrir því að þetta sé vegna kórónaveirunnar, það fær enginn að fara í sumarhúsin á Spáni og því verður væntanlega til aukinn áhugi hér.“
Viðar Böðvarsson er framkvæmdastjóri og eigandi Foldar fasteignasölu. Hann segir þróunina nú keimlíka þeirri sem varð í kjölfar bankahrunsins:
„Það kom eilítið á óvart þarna í kjölfar bankahrunsins að sala á venjulegum íbúðum datt niður, sem var þvert á spár. Það hefur hins vegar ekki gerst enn þá í þessum efnahagsþrengingum sem rekja má til kórónaveirunnar, en hins vegar merkjum við töluvert meiri áhuga á sumarhúsum, alveg eins og gerðist strax árið 2008 og náði fram til 2009. Fólk bar þá lítið traust til bankanna og vildi fjárfesta í fasteignum, en meðan hinn hefðbundni fasteignamarkaður tók dýfu, þá tók sumarhúsamarkaðurinn við sér. Þetta breyttist síðan eftir 2009 þegar hinn hefðbundni fasteignamarkaður tók við sér,“
segir Viðar.
Hann telur ljóst að áhrif kórónaveirunnar á flugsamgöngur og ferðalög hafi töluvert að segja um aukinn áhuga nú:
„Sumarhús á Spáni hafa verið að seljast ótrúlega vel undanfarin ár og hefur markaðurinn hér heima liðið nokkuð fyrir það. Núna eru eflaust fáir að spá í sumarhús erlendis, eru eflaust smeykari við slíkar fjárfestingar sökum þeirrar óvissu sem ríkir í flugsamgöngum og þróuninni vegna COVID-19. Í staðinn horfa þeir til sumarhúsa hér heima.“
Fjölmargar sumarbústaðalóðir eru í boði á Suðurlandi og Vesturlandi, þar sem helstu sumarbústaðabyggðirnar eru. Viðar telur þó að meira sé um að fólk kaupi tilbúna bústaði í stað þess að byggja, þar sem slíkt sé dýrara um þessar mundir:
„Það varð nokkur stöðnun í verði á sumarhúsum 2018 og sérstaklega í fyrra, enda nokkur samkeppni við íbúðir á Spáni sérstaklega. Það kom nokkuð langt tímabil þar sem nánast enginn var að byggja sumarhús eftir hrun. Það hefur aðeins breyst, en mér finnst menn meira vera að byggja fyrir sjálfa sig, heldur en almennan markað. Þá eru það gjarnan menn sem kunna til verka og ná upp sparnaði með því að gera allt sjálfir. Við sjáum það svo líka ágætlega á brunabótamati sumarhúsa hversu hár byggingarkostnaðurinn er og gegnumsneitt er hann talsvert hærri en verð á sumarhúsum í dag. Það segir okkur svolítið hvernig staðan er, að það sé ódýrara að kaupa en að byggja.“
Viðar segir hið sama gilda um tilbúin sumarhús sem aðeins eigi eftir að koma fyrir á staðnum, því þegar kaupverð lóðar sé reiknað ásamt tengigjöldum, hita og rafmagni og öðrum tilfallandi kostnaði, verði reikningsdæmið gjarnan óhagstætt.
Að sögn Viðars er allur gangur á kostnaði sumarhúsa. Verðið fari helst eftir stærð, staðsetningu og nálægð við þjónustu:
„Þú getur fengið bústað allt frá 10 milljónum upp í 100, það eru alveg til dæmi um það. Algengasta verðbilið er líklega frá 15-25 milljóna, en svo er líka stór hluti á milli 30-40 milljóna.“
Meðalfermetraverð sumarhúsa á Suðurlandi hækkaði um allt að 30 prósent milli áranna 2015 og 2018, en staðnaði nokkuð í fyrra samkvæmt verðsjá Þjóðskrár Íslands. Svipaða sögu má segja af Vesturlandi, en það svæði er þó aðeins ódýrara en Suðurland. Þar er Skorradalur dýrasta svæðið. Dýrasta svæðið á Suðurlandi er við Þingvallavatn, en þar á ríkið forkaupsrétt á bústöðum innan þjóðgarðsins þegar þeir bjóðast til sölu og hefur nýtt sér þann rétt til að framfylgja stefnu sinni um fækkun bústaða á svæðinu, svo varðveita megi náttúrulega og upprunalega ásýnd þjóðgarðsins.
Eitt stærsta og vinsælasta sumarhúsasvæðið er í Grímsnesi, en þar má finna bæði marga dýrustu og ódýrustu bústaðina á svæðinu, ýmist við Kiðjaberg eða Hraunborgir. Samkvæmt fasteignavef Morgunblaðsins eru 332 sumarhúsaeignir á Suðurlandi og Vesturlandi falar. Dýrasta eignin er 170 fermetra hús við Kambsbraut í Öndverðarnesi, en ásett verð er 89 milljónir. Stærsta húsið sem er til sölu er rúmir 380 fermetrar, í Reykholti í Borgarfirði, en þar er ekki gefið upp verð heldur óskað eftir tilboði, líkt og við fjölmargar aðrar eignir.
Greinin birtist fyrst í helgarblaði DV