Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að markmið frumvarpsins sé að sporna gegn of mikilli samþjöppun í eignarhaldi lands og gegn uppkaupum erlendra lögaðila á jörðum hér á landi. Undirbúningur að gerð frumvarpsins hófst um svipað leyti í fyrra og Jim Radcliff bætt enn við jarðeignir sínar hér á landi.
Í umsögnum um frumvarpið kemur fram að tiltekin ákvæði þess brjóti gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um eignarrétt, atvinnufrelsi og jafnræði.
Veiðifélagið Strengur í Vopnafirði, sem er að mestu í eigu Radcliff, sendi inn umsögn og með henni ítarlegt lögfræðiálit frá Dr. Carl Baudenbacher, fyrrum forseta EFTA-dómstólsins, sem hann vann fyrir veiðifélagið. Í álitinu færir Baudenbacher rök fyrir því að ákveðin ákvæði frumvarpsins brjóti gegn ákvæðum EES-samningsins.
„Það kemur mér ekki á óvart að þeir sem hafa verið að safna að sér jörðum leggist gegn takmörkunum á slíkri samþjöppun. Ég vænti þess að sérfræðingar sem unnu málið fyrir mig muni bregðast við þessum athugasemdum.“
Hefur Fréttablaðið eftir forsætisráðherra um athugasemdirnar.