Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, telur að ný strangari skilyrði ríkisstjórnarinnar fyrir hlutabótaleiðinni geti leitt til þess að atvinnurekendur grípi í auknum mæli til uppsagna. Þetta kom fram í Bítinu í morgun þar sem Helga Vala og Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri Grænna, tókust á.
Hert skilyrði hlutabótaleiðar
Skilyrði fyrir svonefndri hlutabótaleið voru tekin til endurskoðunar eftir að það kom á daginn að vel stæð fyrirtæki, sem jafnvel höfðu nýlega greitt út arð til hluthafa eða keypt eigin hlutabréf, nýttu leiðina. Til að bregðast við því var ráðist í að herða skilyrði fyrir úrræðinu.
Samkvæmt nýjum hertari skilyrðum mega fyrirtæki sem vilja nýta sér úrræðið ekki greiða arð út til hluthafa, ekki kaupa eigin hlutabréf eða greiða óumsamda kaupauka allt fram til 31. maí 2023.
Helga Vala segir að þessi skilyrði geti reynst litlum og meðalstórum fyrirtækjum erfið. Ætli þau að nýta sér leiðina verði þau að skuldbinda sig til að greiða ekki arð út í þrjú ár, en slík skilyrði geti leitt til þess að þessi fyrirtæki grípi frekar í uppsagnir.
„Sú gagnrýni sem maður heyrir helst þarna eru í rauninni viðurlögin sem eru í þessu frumvarpi af því að viðurlögin þau endast í þrjú ár. Næstu þrjú árin má fyrirtæki ekki borga eiganda arð, kaupa eigin hluti og svo framvegis og framvegis. Maður skilur alveg þegar maður hlustar á umræðuna í samfélaginu þá eru arðgreiðslur eitthvað algjört taboo,“ sagði Helga Vala í Bítinu. Helga Vala benti þó á að stundum séu arðgreiðslur nauðsynlegar, sérstaklega sprotafyrirtækjum, til að greiða upp lán sem eigandi hefur þurft að taka í eigin nafni til að koma fyrirtækinu á laggirnar. Þess vegna munu þessi skilyrði ganga mjög nærri minni fyrirtækjum.
Ef þau geta greitt arð, þá þurfa þau ekki hlutabótaleið
Lilja Rafney er þessu ósammála. Fyrirtæki sem strax í dag sjái fram á að geta greitt út arð á næstu þremur árunum ættu hreinlega ekki að vera að nýta sér úrræðið. Úrræðinu hafi ekki verið komið á til að fyrirtæki komist skaðlaust frá heimsfaraldrinum heldur til að varna uppsögnum. Fyrirtæki hafi einnig kost á því innan þessara þriggja ára að endurgreiða ríkinu kostnað vegna hlutabótaleiðarinnar og geti þá greitt sér út arð eftir sem áður.
„Þetta er opinbert fé sem við erum að tala um og það er ekki sjálfgefið að fyrirtæki fái niðurgreiðslu á launum fólks,“ sagði Lilja. Fyrirtæki þurfi því að hugsa sig vel um hvort þessi leið henti þeim eða hvort þeir vilji hreinlega fara einhverja aðra.
„Ég tel að þetta ætti nú ekki að trufla og það er mjög eðlilegt við þessar aðstæður og hefur komið fram í umsögn ASÍ að opinber fyrirtæki eða nú fyrirtæki heilt yfir, að þau verði að skilja að þarna er verið að greiða mikla fjármuni úr opinberum sjóðum, fleiri milljarða, og menn geti ekki litið á það sem sjálfsagðan hlut ef þau treysta sér til að greiða arð.“
Sprengja maurinn
Helga Vala segir að úrræðið hafi átt að vernda launþega gegn uppsögnum. Það virðist hafa gleymst.
„Þetta hefur sérstaklega verið lofsamað vegna þess að það er verið að reyna að halda ráðningarsamningnum, það er verið að reyna að halda fólki í störfum í staðinn fyrir að fara þá leið að segja fólki upp. […] Þarna finnst mér í rauninni ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir vera búnir að gefast upp fyrir því mikilvæga verkefni.“
Helga Vala segir þetta ekki réttu leiðina til að fyrirbyggja misnotkun á hlutabótaleiðinni. Með þessum stöngu skilyrðum sé verið að koma í veg fyrir að fyrirtæki geti sótt sér hlutafé til fjárfesta því fjárfestum lítist líklega miður á að eiga engan möguleika á arð í heil þrjú ár.
„Mér finnst þetta pínulítið vera þannig að við ætlum að taka maurinn og koma með bazooka og ætla að sprengja þá alla.“
Þá benti Lilja á að nú sé ástandið vegna Covid farið að batna og margir hættir að nýta hlutabótaleiðina. Þessi skilyrði séu því rökrétt framhald til að tryggja að vel sé farið með opinbert fé „Fyrirtæki verða líka að taka ábyrgð á sjálfum sér, það sleppur enginn út úr þessu í einhverjum plús næstu tvö þrjú árin.“