Staða geðheilbrigðismála á Íslandi hefur lengi þótt afgangsstærð og málaflokkurinn ekki fengið þá athygli og það fjármagn frá heilbrigðisyfirvöldum sem hann á skilið. Áætlað er að heilbrigðisyfirvöld veiti um 10 prósentum af heildarútgjöldum sínum til geðheilbrigðismála. Ekki er hægt að fyllast sérstakri bjartsýni um að það breytist á næstunni, þó sjaldan hafi þótt meira tilefni til, vegna áhrifa Covidkreppunnar.
Einar Þór Jónsson er formaður Geðhjálpar, en samtökin vinna að því að bæta hag fólks með geðraskanir og geðfötlun. Hann segir í helgarblaði DV að fleiri hafi leitað til samtakanna en áður strax í mars og vonar að málaflokkurinn fái þá athygli stjórnmálamanna sem hann eigi skilið:
„Sjálfur kýs ég að horfa á ljósið í myrkrinu, þó svo útlitið sé dökkt núna. Ég trúi því samt að skilningur og velvild aukist fyrir okkar málaflokki í framhaldinu, en auðvitað verður áfram rifist um peninga. Ég held að maður verði að vera raunsær og búast við niðurskurði í heilbrigðiskerfinu og á fleiri stöðum. Maður veit ekkert hvernig haldið verður á málum en auðvitað vonar maður að stjórnmálamenn átti sig á því að forvarnir í geðheilbrigðismálum hafa aldrei verið mikilvægari en einmitt nú. Það höfum við lært frá bankahruninu, að ef ekki verður tekið á málum strax, mun þjóðin fá það í bakið síðar meir, með miklu meira umfangi og kostnaði en ella.“
Þetta er brot úr umfjöllun Eyjunnar um geðheilbigðismál á tímum Covidkreppu í helgarblaði DV.