Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, gerir lítið úr innihaldi bréfs Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, til starfsmanna sinna í gær, en þar lýsti Bogi því yfir að helsta fyrirstaðan fyrir að bjarga félaginu væri starfsfólkið.
Björn segir að RÚV hafi ollið uppnámi með því að fjalla um bréfið, en fjölmargir gagnrýndu Boga fyrir orðaval sitt, ekki síst Drífa Snædal, forseti ASÍ og Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Um þetta segir Björn:
„Það fór ekki á milli mála hvað klukkan sló á fréttastofunni og forysta Alþýðusambands Íslands var ekki lengi að taka við sér.“
„Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, fór einnig á Facebook og vandaði stjórnendum Icelandair ekki kveðjurnar, lét eins og hann vissi betur en þeir hvernig ætti að reka félagið.“
Þá segir Björn að Drífa tali með ábyrgðarlausum hætti:
„Drífu Snædal hefur á skömmum tíma tekist að jaðarsetja ASÍ með því að stunda kapphlaup við þá sem belgja sig mest í röðum samtakanna.Engu er líkara en Drífa og félagar telji umbjóðendum sínum fyrir bestu að tala á svo ábyrgðarlausan hátt að enginn taki mark á þeim. Þeir sem þannig láta eiga erfitt með að sætta sig við orð hinna sem segja hlutina eins og þeir eru. Bogi Nils Bogason gerði það eitt í innanhúsbréfi sínu sem fréttastofa ríkisútvarpsins kynnti með dramatískum afleiðingum.“