Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, telur þau fyrirtæki sem sætt hafa gagnrýni undanfarna viku fyrir að nýta hlutabótaleið samhliða arðgreiðslum eða umfangsmiklum kaupum á eigin hlutabréfum, líklega gera slíkt til að fegra ársfjórðungauppgjör til að ganga í augun á fjárfestum. Þetta kom fram í Sprengisandi í dag þar sem Árni Oddur var gestur.
Marel nýtir ekki hlutabótaleiðina
„Ég er búin að vera að hugsa mikið um þetta og fylgjast með fréttum líka og til að taka af allan vafa þá hefur Marel ekki nýtt neinar slíkar leiðir og ætlar sér ekki að gera það í það minnsta þegar staðan er þetta góð hjá okkur.“ Árni Oddur lýsir því hvernig starfsemi Marel hefur ekki beðið mikið tjón sökum heimsfaraldurs COVID-19, þó svo áhrifin séu einhver.
Hann telur hlutabótaleiðina þó almennt vel útfærða. Mikilvægt hafi verið að hafa hana einfalda í sníðum með fáum skilyrðum til að auka skilvirkni og hraða því það skipti sköpum fyrir úrræðið að fyrirtæki þurfi ekki að bíða lengi eftir að fá það í gegn.
Árni telur ríkisstjórnina hafa staðið sig í lappirnar, ekkert síður en þríeykið og samfélagið allt í þessu fordæmalausa ástandi.
„Ég tel rétt að ríkið hafi sett fram svona almennar leiðir með ekki mikið af skilmálum fram. Það má ekki hanna kerfi til að koma í veg fyrir að einhverjir örfáir svindli á kerfinu því þá verður það svo seinvirkt. Við erum búin að færa landið og efnahagsstigið á neyðarstig og þetta verður að gerast mjög hratt fyrir sig.“
Nýta hlutabótaleið til að fegra uppgjör
„[…]Förum svo í hvað er ríkissjóður. Ríkissjóður er ég og þú og allir hér í landinu. Förum svo í frumvarpið um hlutabótaleiðina. Þó það standi um hlutabótaleiðina, að það sé til að verja tekjufalli þá stóð þar, í frumvarpinu „fyrir fyrirtæki í alvarlegum rekstrarvanda“. Svo virðist vera að sum fyrirtæki, sem eru alls ekki í alvarlegum rekstrarvanda, heldur eru að reyna að bjarga ársfjórðungsuppgjöfum sínum til að ganga í augum á fjárfestum, hafi verið að nota hlutabótaleiðina. Og tilgangurinn var ekki þannig. Og þetta er ekki bara umræða á Íslandi. Það er svipuð umræða að eiga sér stað í Bandaríkjunum og í Evrópu.“
Árni bendir á að krafa annars staðar hafi verið á þau fyrirtæki sem nýti sér slíkar leiðir, án þess að þurfa þess, hafi verið að þeir skili peningunum aftur til ríkisins.
„Við verðum að sýna samfélagslega ábyrgð í þessu og ég get ekki annað sagt en að það sé betra að hafa almennt kerfi, eins og ríkið gerði, sem gagnast meginþorra fyrirtækjanna einn tveir og þrír því það er ekkert gagn í því að við séum að þvælast fram og til baka og komum með þetta þremur mánuðum of seint. Hins vegar samfélagslega ábyrgð – menn verða að sýna hana.“
Þegar gengið er til elsku mömmu
Árni Oddur segist þó ekki vera að hnýta í kollega sína. Ástandið í dag sé fordæmalaust og mörg fyrirtæki sitji með starfsmenn sem geti ekki sinnt vinnu sinni og þá sé freistandi að grípa í hlutabótaleiðina. En þó séu til aðrar leiðir eins og að hlaupa í önnur verk eða nýta tækifærið til að endurmennta starfsmenn.
„Ég er að segja að tilgangur hlutabótaleiðarinnar var alveg skýr, hann var að hjálpa fyrirtækjum í alvarlegum rekstrarvanda“
Árni segir það ljóst að ef fyrirtæki eru ekki illa stödd og geta greitt út arð eða keypt hlutabréf. Þá eigi þeir ekkert erindi í úrræði ríkissjóðs.
„Mér finnst algjörlega rangt að fyrirtæki séu að greiða út arð eða kaupa bréf þegar það er verið að ganga til elsku mömmu, ríkisins, og biðja um aðstoð. Við verðum öll að lifa í sátt, hluthafarnir, starfsmennirnir og viðskiptavinirnir“