Flugfélagið Play nýtir nú hlutabótaleiðina fyrir 24 starfsmenn af þeim 36 sem hjá fyrirtækinu starfa. Stjórnendur fyrirtækisins hafa einnig tekið á sig launaskerðingu. Þetta kemur fram í svari Arnars Más Magnússonar, forstjóra Play, við fyrirspurn Eyjunnar.
Stjórnendur lækkaðir í launum
„Það liggur auðvitað fyrir að það var lán í miklu óláni að PLAY var ekki komið af stað með flug fyrir COVID-19 faraldurinn en það þýðir jafnframt að sala hefur tafist og því eru tekjur félagsins engar eins og er. Viðbrögð okkar við þessu hafa verið þau að bíða átekta framan af en 1. mars tók hinsvegar framkvæmdastjórn á sig launaskerðingu, og stjórnendur frá 1. apríl og eru núna með 700 þúsund krónur í heildarlaun.“
„Við drógum það að nýta hlutabótaleiðina eins og kostur er. Henni er hinsvegar ætlað að viðhalda ráðningarsambandi við starfsfólk og þar sem flugfélagið er tekjulaust, en viðbúið því að hefja flug, þá vildum við viðhalda ráðningarsambandinu við fólkið okkar. Öðrum kosti hefði þurft að koma til uppsagna eins og víða annarsstaðar. Með launalækkun stjórnenda þá erum við ennfremur öll á sama báti tekjulega séð.“
Aðeins 12 lykilstjórnendur félagsins eru nú í fullu starfshlutfalli en á skertum launum.
Þreyja þorrann
„Víða um heim hafa stjórnendur flugfélaga brugðist við með verulegum launalækkun, við gerum það líka enda erum við lággjalda flugfélag. Og þar sem við ætlum að vera hluti af viðreisn og viðspyrnu íslenskrar ferðaþjónustu þá leggjumst við öll á eitt til að eiga sterka innkomu á flugmarkaðinn um leið og það er hægt. Á meðan þreyjum við þorrann.Við getum lítið spáð um framtíðina annað en það að segja að við erum mjög spennt fyrir því að verða hagkvæmur og þægilegur valkostur fyrir íslenska neytendur og erlenda ferðamenn.“
Nýlega var greint frá á vef Túrista.is að flugfélagið Play bíði átekta með að taka fyrstu flugvélina í notkun og væru komnir með nægt fjármagn til að hefja flug og ef aðstæður í samfélaginu væru aðrar en nú væru þeir þegar komnir á loftið.