„Illa hefur farnast við stjórn borgarinnar, síðan ég, sem síðasti ábyrgi borgarstjórinn, hvarf úr embætti. Í dag og undir forystu Dags hafa atvinnustjórnmálamenn margfaldað kostnað vegna sín og nú er rekstur skrifstofu borgarstjóra fimmfalt dýrari en í minni tíð!“
Svo skrifar Ólafur F. Magnússon, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, sem minnir rækilega á sig í grein í Morgunblaðinu í dag. Hann segist hafa afar duglegur borgarfulltrúi og borgarráðsmaður, þó svo hann hafi einnig starfað sem læknir í fullu starfi og það hafi pirrað aðra borgarfulltrúa að hann hafi haft í fullu tré við atvinnustjórnmálamennina, ekki síst þar sem hann hafi lagt áherslu á sparnað:
„Óhætt er að segja að störf mín í borgarstjórn og borgarráði árin 2002- 2010 séu rækilega skjalfest í fundargerðum, með tillögum, bókunum og greinargerðum. Þetta gerði mörgum atvinnustjórnmálamanninum gramt í geði auk þess sem ég herjaði á misnotkun kjörinna fulltrúa Reykvíkinga á almannafé með endalausum veisluhöldum, risnu og utanlandsferðum, sem helst mætti kalla skemmti- og dagpeningaferðir á kostnað almennings.“
Ólafur segist aldrei hafa tekið þátt í risnu- og dagpeningaeyðslu líkt og aðrir borgarfulltrúar, og aðeins farið í eina utanlandsferð á 20 árum, en það var til Færeyja er hann var borgarstjóri og var um boðsferð að ræða.
Ólafur segir að hann hafi verið afkastamesti borgarfulltrúi Reykvíkinga og rifjar upp sögu af Björk Vilhelmsdóttur:
„En vegna þessa gætti mikillar heiftar í minn garð frá meintum „samstarfsmönnum“ mínum í borgarstjórn, eins og kristallaðist í ósannindum Bjarkar Vilhelmsdóttur, borgarfulltrúa Samfylkingar, þegar ég varð borgarstjóri. Þá sagði Björk það blákalt, að ég hefði aldrei getað sinnt því hlutverki að vera borgarfulltrúi í fullu starfi og hefði ekki eirð í mér til að sitja einn heilan borgarstjórnarfund. Fundargerðir borgarstjórnar í tíð minni sem forseti borgarstjórnar og síðan borgarstjóri vitna um hið gagnstæða. Ég var ásamt Kjartani Magnússyni og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur eini borgarfulltrúinn sem sat alla 13 fundi borgarstjórnar á þessum tíma, en Björk sat aðeins 6 fundanna í heild! En hún bætti síður en svo fyrir skömm sína þegar hún fullyrti að ég gæti aldrei valdið borgarstjórastarfinu. Var ég þó stafandi læknir í fullu starfi og langafkastamesti borgarfulltrúi Reykvíkinga.“
Ólafi lýst illa á þróunina síðan hann hætti:
„Í dag, 12 árum eftir að ég varð borgarstjóri í Reykjavík árið 2008, er mér vitanlega enginn borgarfulltrúi í krefjandi starfi eins og læknisstarfið er samhliða borgarfulltrúastarfinu. Atvinnumennskan og hugsjónaleysið í borgarstjórn einkennist nú af því, að borgarfulltrúar hafa fjölgað sjálfum sér í 23 úr 15 og þar með er samanlagður fjöldi aðal- og varaborgarfulltrúa orðinn 46. Þessu til viðbótar eru varaborgarfulltrúar komnir á föst laun. Nokkuð sem engum hefði dottið í hug þegar ég hóf feril minn í borgarstjórn, árið 1990.“
„Ég gæti fjallað miklu meira um hugsjónaleysið, græðgina og spillinguna í borginni, sem hefur einkennt hana eftir að Hanna Birna Kristjánsdóttir velti mér úr sessi, eftir sjö mánaða borgarstjóratíð mína, 21. ágúst 2008. Frá árinu 2010 hefur Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi starfandi læknir, verið raunverulegur stjórnandi Reykjavíkurborgar, því að aldrei mun ég líta svo á að leikarinn og „grínistinn“ Jón Gnarr hafi nokkurn tíma sinnt starfi sínu sem borgarstjóri, þó að Björk Vilhelmsdóttir hafi ekki gefið honum falleinkunn, eins og mér forðum!“